Innlent

Stálu frystum fiskafurðum og fuglakjöti fyrir tæpar 700 þúsund krónur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Héraðsdómur Norðurlands eystra á Akureyri.
Héraðsdómur Norðurlands eystra á Akureyri. Vísir/pjetur
Héraðsdómur Norðurlands Eystra hefur dæmt tvo menn til fangelsisvistar fyrir að hafa stolið frosnum fiskafurðum og fuglakjöti í nóvember í fyrra en verðmæti þýfisins nam tæpum 700 þúsund krónum. Annar maðurinn var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi og hinn maðurinn í tveggja mánaða fangelsi en þeir játuðu sök fyrir dómi.

Að því er fram kemur í ákæru brutust mennirnir í sameiningu inn í frystigám fyrir utan fiskverkunina Hnýfil á Akureyri. Stálu þeir þaðan frosnum fiskafurðum, meðal annars fiskibollum, fiski í orlydeigi, humri, smálúðuflökum og söltuðum gellum. Þá stálu þeir jafnframt lunda og svartfuglsbringum.

Við ákvörðun refsingar yfir mönnunum var litið til þess að fyrirtækið varð ekki fyrir verulegu tjóni vegna innbrotsins þar sem þýfið náðist að mestu. Þá var jafnframt litið til þess að mennirnir brutust inn í sameiningu.

 

Ekki var unnt að skilorðsbinda dómana þar sem mennirnir eiga báðir töluverðan sakaferil að baki. Þá rauf annar mannanna skilorð með innbrotinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×