Viðskipti innlent

Þungt ár fyrir lífeyrissjóði landsins

Sæunn Gísladóttir skrifar
Gengisáhrif krónunnar til lækkunar á erlendum eignum lífeyrissjóðanna námu tugum milljarða á síðasta ári en þá styrkist gengi krónunnar um rúm 18 prósent.
Gengisáhrif krónunnar til lækkunar á erlendum eignum lífeyrissjóðanna námu tugum milljarða á síðasta ári en þá styrkist gengi krónunnar um rúm 18 prósent. Vísir/GVA
Afkoma stærstu lífeyrissjóða landsins á síðasta ári olli vonbrigðum. Hrein raunávöxtun var neikvæð hjá þremur af fjórum stærstu lífeyrissjóðum landsins, sem eru með meira en helming heildareigna allra lífeyrissjóða landsins. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) var eini sjóðurinn sem skilaði jákvæðri ávöxtun á árinu 2016. Stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LIVE) segir umhverfið sem sjóðunum var skapað ekki hafa verið hagfellt á síðasta ári. Gengis­áhrif krónunnar til lækkunar á erlendum eignum LIVE námu 21,2 milljörðum króna.

Hrein raunávöxtun dróst verulega saman hjá LSR, Gildi, LIVE og Birtu milli ára og nam milli -1,5 og 0,8 prósentum árið 2016, samanborið við 6,5 til 10,2 prósent árið áður.

Hrein raunávöxtun LSR árið 2016 nam 0,8 prósentum, samanborið við 6,5 prósent á síðasta ári, en meðaltal hreinnar raunávöxtunar LSR síðustu fimm árin nam 6,3 prósentum. Hrein raunávöxtun hjá Gildi lífeyrissjóði var neikvæð um 0,9 prósent árið 2016, en var jákvæð um 7,7 prósent árið 2015. Á síðustu fimm árum nam meðaltalið 5,7 prósentum.

Hrein raunávöxtun dróst mest saman af öllum sjóðunum hjá LIVE og var neikvæð um 1,2 prósent árið 2016, samanborið við að vera jákvæð um 10,2 prósent árið áður. Á síðustu fimm árum nam meðaltalið 6,4 prósentum. Hjá Birtu lífeyrissjóði nam hrein raunávöxtun -1,5 prósentum, samanborið við 8,5 prósent árið áður. Meðaltal síðustu fimm ára nam 5,3 prósentum.



Styrking krónunnar hafði umtalsverð áhrif á ávöxtun erlendra eigna lífeyrissjóðanna á liðnu ári, en krónan styrktist um 18,4 prósent á tímabilinu. Gengisáhrif krónunnar til lækkunar á erlendum eignum LIVE námu 21,2 milljörðum króna á árinu 2016. Þetta kom fram í máli Guðmundar Þ. Þórhallssonar, framkvæmdastjóra sjóðsins, þegar hann flutti yfirlit um afkomuna á árinu 2016 á ársfundi sjóðsins.

Umhverfið ekki hagfellt

„Síðasta ár var þungt og ekki eins og vonir stóðu til. Það liggur í hlutarins eðli að við erum sterk í hlutabréfum og ávöxtun í hlutabréfasafninu var undir væntingum á síðasta ári og við það bætist þessi styrking krónunnar sem skilar því að erlendar eignir okkar eru í neikvæðum tekjum á síðasta ári,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, stjórnarformaður LIVE.

„Þetta er eðli svona safna að þau fara upp og þau fara niður og þá er gríðarlega mikilvægt að við erum langtímafjárfestir og lítum á lengri sögu en bara tólf mánaða. Niðurstaða síðasta árs olli vonbrigðum, en sem betur fer eru þau vonbrigði ekki bara bundin við okkar sjóð heldur við kerfið í heild sinni og við erum ekki með lakari niðurstöður en hinir sjóðirnir.“





Guðrún Hafsteinsdóttir
Hún segir umhverfið sem þeim var skapað ekki hafa verið hagfellt á síðasta ári. „Það er gríðarlega mikilvægt að við festum okkur ekki í einni vondri niðurstöðu, heldur horfum fram í tímann.“

Hún segir sjóðinn vitaskuld hafa áhyggjur af krónunni. „Allir hafa áhyggjur af því. Ég verð að segja að okkur vantar svo stöðugleika í íslenskt efnahagslíf og þessar miklu sveiflur í gengi, þær eru öllum erfiðar, hvort sem það eru fjárfestingarsjóðir eins og lífeyrissjóðurinn okkar eða fyrirtækin í landinu. Það sem við öll þurfum, það er stöðugleiki.“

Þola sveiflur milli ára

Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs, segir að stóra skýringin sé gengi krónunnar sem hafi haft afgerandi áhrif á afkomuna. „Innlendur hlutabréfamarkaður spilar þarna inn líka. Þó að við höfum náð ágætis árangri miðað við almennar breytingar á hlutabréfamarkaði þá var hann ekki góður, en fyrst og fremst er það krónan sem er að hafa þessi áhrif á afkomuna.

Krónan verður áfram heilmikill áhrifavaldur á þessu ári, en við eigum um 27 prósent í erlendum eignum og munum auka það bara upp á áhættudreifingu og langtímasjónarmið. Einstök tímabil og ár geta komið verr út vegna krónunnar en til lengri tíma erum við að horfa til áhættudreifingar og langtímafjárfestingar.

Árni Guðmundsson
Við gerum okkur grein fyrir því að ávöxtun á þessu ári vegna krónunnar gæti ekki verið eins góð og við myndum vilja. En við teljum það lykilatriði til lengri tíma litið að dreifa áhættunni og eiga stærri hluti eigna erlendis. Við þolum sveiflur milli ára og þurfum ekki að gera neinar breytingar út af þessu á réttindum sjóðfélaga.“

Gríðarleg ásókn í sjóðfélagalán

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu, segir að afkoman hafi valdið ákveðnum vonbrigðum. „Stærstu áhrifin eru vegna krónunnar sem leiðir til rúmlega 10 milljarða lækkunar á erlendum eignum, mælt í krónum. Svo eru innlend hlutabréf á síðasta ári sem vega tiltölulega þungt með slaka afkomu. Þetta tvennt er það sem kannski vó þyngst. Svo vorum við að sameina tvo sjóði, Sameinaða lífeyrissjóðinn og Stafi lífeyrissjóð, sem flækir þetta að einhverju leyti. Það eru í sjálfu sér engin meiriháttar vonbrigði miðað við að við vorum með mikinn fókus á að sameina tvo sjóði.“

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu.
Gríðarleg aukning var í sjóðfélagalánum hjá lífeyrissjóðunum á síðasta ári. Vöxturinn hófst haustið 2015 hjá LIVE þegar gerðar voru breytingar á kjörum nýrra sjóðfélagalána og í kjölfar breytinga á lánareglum sjóðsins hjá Gildi. Allt árið 2016 var mikil og stöðug eftirspurn eftir sjóðfélagalánum hjá LIVE og námu þau 31,6 milljörðum króna, sem var 640 prósenta aukning milli ára. Hjá Gildi voru veitt 625 ný lán til sjóðfélaga samtals að fjárhæð 7,3 milljarðar króna sem var ríflega 230 prósenta aukning milli ára.

Í árslok 2016 námu lán til sjóðfélaga Birtu samtals 17,97 milljörðum. Nettó útlánaaukning á milli ára (að teknu tilliti til uppgreiðslna) nam um 2,8 milljörðum króna.

„Ég veit ekki hvort það verður aukning í ár, það hefur verið mikil aukning undanfarin tvö ár og það hafa verið viðvarandi núna í nokkuð langan tíma svipuð útlán frá mánuði til mánaðar og ég sé ekki breytingu á því á næstunni, hvorki aukningu né samdrátt,“ segir Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis.

Guðrún Hafsteinsdóttir segir að LIVE hafi fundið að mikil eftirspurn sé á þessum markaði. „Ég held að það muni hægja eitthvað á henni, en samt sem áður held ég að það verði ásókn í sjóðfélagalánin hjá okkur.“

„Sjóðfélagalánum fjölgar og það er alveg í takt við það sem er að gerast hjá öðrum lífeyrissjóðum, það er töluverð aukning og mikil ásókn í sjóðfélagalán,“ segir Ólafur Sigurðsson. Hann segir erfitt að meta hvort áframhaldandi aukning verði á árinu. „Ég á allt eins von á því að það haldi áfram en verði kannski ekki jafn mikil aukning milli ára í þeim skilningi.“

Fara ekki út með fé í offorsi

Litið fram á veginn stefna lífeyrissjóðirnir að auknum umsvifum erlendis. „Meðal annars munum við auka eitthvað við erlendar fjárfestingar og síðan leita þeirra tækifæra sem bjóðast. Með því að auka fjárfestingar erlendis drögum við úr fjárfestingum innanlands sem hafa verið allsráðandi undanfarin ár vegna haftanna,“ segir Árni.

Undir þetta tekur Guðrún. „Ég held að núna eftir að höftum hefur verið aflétt muni sjóðirnir sækja í auknum mæli út úr landinu með fé, ég á ekki von á því að það verði gert í einhverju offorsi. Ég held að sjóðirnir sem eru búnir að vera frá þeim mörkuðum í einhvern tíma muni fikra sig aftur í auknar erlendar eignir.“ Hún segist ekki geta fullyrt hvort það verði á kostnað skráðra hlutabréfa.

Ólafur segir að fókusinn í ár verði á að hagræða og renna sjóðunum almennilega saman. „Við fengum starfsleyfi 1. desember á síðasta ári. Fókusinn fer í að samræma eigna­stýringuna og nota stærðina til að ná niður kostnaði og fókusera á þær eignir og sjóði sem hafa nýst okkur vel.“ Hann segir fyrsta áfanga lokið í stærstu sameiningu síðasta árs og næsta skref í sameiningu sé að nýta stærðina og skipuleggja sjóðinn.

Hann segir að stefnt verði að aukningu í erlendum eignum. „Markmiðið var að fara upp í 30 prósent, en sú fjárfestingarstefna var mótuð þegar við vorum í höftum og við erum að endurskoða hana núna. En það hefur lengi verið markmið að hækka hlutfall erlendra eigna.“ Hann segir að enn eigi eftir að ákveða að hve háu hlutfalli verði stefnt og hvort það verði yfir 30 prósentum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×