Innlent

Segir utanríkisráðherra vera andstæðing þróunarsamvinnu

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri Grænna segir Guðlaug Þór Þórðarsson, utanríkisráðherra ekki ætla sér að standa við skuldbindingar Íslands.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri Grænna segir Guðlaug Þór Þórðarsson, utanríkisráðherra ekki ætla sér að standa við skuldbindingar Íslands. Mynd/samsett
„Það er sorglegt að Viðreisn og Björt Framtíð skuli leggja blessun sína á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar,“ segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri Grænna. 

Í grein í Fréttablaðinu í gær bendir Rósa á að ríkisstjórnin ætli sér ekki að standa við skuldbindingar í þróunarmálum sem samþykkt var með þingsályktunartillögu árið 2013.

„Í fjármálaáætlun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar til næstu 5 ára, kemur fram að Ísland ætlar að draga mun meira úr framlögum til þróunarmála en síðasta ríkisstjórn ákvað. Einnig stendur til að fækka samstarfslöndum í Afríku. Verði áætlunin samþykkt mun Ísland greiða helmingi minna til þróunarmála en ríkisstjórn VG og Samfylkingarinnar ætlaði sér að ná við mun verri efnahagsaðstæður en nú,“ skrifar Rósa í Fréttablaðið.

Sjá: „Hverjir styðja samdrátt til þróunarmála?“

Ályktun Alþingis frá árinu 2013 kveður á um að framlög Íslands til þróunarmála eigi að hækka úr 0,26 prósent af vergum þjóðartekjum upp í 0,42 prósent árið 2016.

Í ríkisfjármálaáætlun 2018 til 2022 er sagt að Ísland styðji við markmið Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki skuli veita sem nemur 0,7 prósent af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu.

Hinsvegar er gert ráð fyrir því í ríkisfjármálaáætlun 2018 til 2022 sem nú liggur fyrir Alþingi að þróunaraðstoð hækki úr 0,25 prósent í 0,26 prósent árið 2018 og haldist óbreytt til ársins 2022.

„Þetta er í raun og veru samdráttur frá þeim fyrirheitum sem lagt var upp með þegar Gunnar Bragi Sveinsson var utanríkisráðherra, þetta er minna en Framsóknarflokkurinn vildi á síðasta kjörtímabili,“ segir Rósa í samtali við fréttastofu.

„Þá er það athyglisvert að hugmyndir um þróunaraðstoð sem við sjáum í ríkisfjármálaáætlun er í takt við tillögur hagræðingarhópsins á síðasta kjörtímabili sem var undir forystu Vigdísar Hauksdóttur, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Ásmundar Einars Daðasonar. Ég held að með þessum áherslum sýni Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, að hann sé andstæðingur þróunarsamvinnu,“ segir hún og bendir á að allir þingmenn hafi greitt atkvæði með þingsályktunartillögunni árið 2013 að Vigdísi Hauksdóttur undanskilinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×