Enski boltinn

Redknapp fær ekki laun ef Birmingham fellur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Redknapp í góðum gír á veðreiðum.
Redknapp í góðum gír á veðreiðum. vísir/getty

Harry Redknapp, nýráðinn knattspyrnustjóri Birmingham City, ætlar ekki að þiggja laun ef liðið fellur úr ensku B-deildinni.

Hinn sjötugi Redknapp tók óvænt við Birmingham í gær en hann fær það verkefni að bjarga liðinu frá falli.

Redknapp gerði svipaðan samning þegar hann starfaði sem ráðgjafi hjá Derby County í fyrra. Þá vildi hann ekki fá borgað ef liðið kæmist ekki í umspil um sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Redknapp hefur ekki þjálfað síðan hann hætti hjá QPR í febrúar 2015, ef frá eru taldir tveir leikir með landslið Jórdaníu í fyrra.

Redknapp býr yfir gríðarlega mikilli reynslu en hann stýrði áður Bournemouth, West Ham, Portsmouth, Southampton og Tottenham, auk QPR.

Birmingham er í 20. sæti B-deildarinnar með 47 stig, þremur stigum frá fallsæti. Fyrsti leikur Redknapps við stjórnvölinn er grannaslagur gegn Aston Villa á sunnudaginn.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira