Innlent

Vetrarástand á fjallvegum norðanlands

Atli Ísleifsson skrifar
Hálkublettir eru á Hellisheiði.
Hálkublettir eru á Hellisheiði. Vísir/stefán

Vetrarástand er á mörgum fjallvegum norðvestanlands, svo sem Steingrímsfjarðarheiði, Hálfdán, Bröttubrekku og á Holtavörðuheiði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni en í dag er reiknað með suðvestan hvassviðri og stormi, eða að 19 til 23 metrar á sekúndu verði með kvöldinu og í nótt. Búast má við skafrenningi og vaxandi éljagangi og blindu þegar frá líður, einnig á Öxnadalsheiði í kvöld og nótt.

„Hálkublettir eru á Hellisheiði. Vegir eru að mestu greiðfærir á Suður- og Vesturlandi en á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku er hálka og skafrenningur og á Svínadal er éljagangur og hálkublettir.

Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er á fjallvegum á Vestfjörðum og víða él og skafrenningur. Óveður og hálka er á Mikladal og á Hálfdán. Mikill skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði og verður heiðin líklega ófær um leið og þjónustu líkur í kvöld kl. 19 Ófært er á Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði.

Á Norðurlandi eru vegir að mestu auðir en þó eru hálkublettir og skafrenningur á Öxnadalsheiði og hálkublettir og éljagangur á Vatnskarði. Einnig hálkublettir á Hólasandi og Dettifossvegi.

Það er að mestu greiðfært á Austurlandi en hálkublettir á Öxi. Greiðfært er með suðausturströndinni,“ segir í tilkynningunni.
Fleiri fréttir

Sjá meira