Innlent

Vetrarástand á fjallvegum norðanlands

Atli Ísleifsson skrifar
Hálkublettir eru á Hellisheiði.
Hálkublettir eru á Hellisheiði. Vísir/stefán

Vetrarástand er á mörgum fjallvegum norðvestanlands, svo sem Steingrímsfjarðarheiði, Hálfdán, Bröttubrekku og á Holtavörðuheiði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni en í dag er reiknað með suðvestan hvassviðri og stormi, eða að 19 til 23 metrar á sekúndu verði með kvöldinu og í nótt. Búast má við skafrenningi og vaxandi éljagangi og blindu þegar frá líður, einnig á Öxnadalsheiði í kvöld og nótt.

„Hálkublettir eru á Hellisheiði. Vegir eru að mestu greiðfærir á Suður- og Vesturlandi en á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku er hálka og skafrenningur og á Svínadal er éljagangur og hálkublettir.

Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er á fjallvegum á Vestfjörðum og víða él og skafrenningur. Óveður og hálka er á Mikladal og á Hálfdán. Mikill skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði og verður heiðin líklega ófær um leið og þjónustu líkur í kvöld kl. 19 Ófært er á Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði.

Á Norðurlandi eru vegir að mestu auðir en þó eru hálkublettir og skafrenningur á Öxnadalsheiði og hálkublettir og éljagangur á Vatnskarði. Einnig hálkublettir á Hólasandi og Dettifossvegi.

Það er að mestu greiðfært á Austurlandi en hálkublettir á Öxi. Greiðfært er með suðausturströndinni,“ segir í tilkynningunni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira