Lífið

Victoria Beckham heiðruð fyrir framlag sitt til tísku

Anton Egilsson skrifar
Vilhjálmur Bretaprins veitti Victoriu orðuna í Buckingham höll í dag.
Vilhjálmur Bretaprins veitti Victoriu orðuna í Buckingham höll í dag. Vísir/AP

Victoria Beckham bætti enn einni skrautfjöðrinni í hatt sinn í dag þegar hún var heiðruð með orðu breska heimsveldisins, OBE. Orðuna fékk hún fyrir framlag sitt til tísku.

Það var sjálfur Vilhjálmur Bretaprins sem veitti Victoriu orðuna við hátíðlega athöfn í Buckingham höll að viðstöddum eiginmanni hennar, David Beckham, og foreldrum hennar. Þess má til gamans geta að fótboltakappinn fyrrverandi hlaut einmitt sama heiður árið 2003.

„Ef þú vinnur að því baki brotnu að elta draumana þína þá getur þú áorkað stóra hluti,” sagði Victoria í samtali við Daily Mail að athöfninni lokinni.

Victoria skaust fyrst upp á stjörnuhimininn árið 1994 þegar hljómsveit hennar Spice Girls eða Kryddpíurnar kom fram á sjónarsviðið en sveitin öðlaðist heimsfrægð á skömmum tíma. Hljómsveitin lagði upp laupana árið 2001 en hefur þó komið saman síðan, meðal annars í tilefni ólympíuleikanna í London árið 2012.

Árið 2008 þreytti hún svo frumraun sína í tískuheiminum þegar hún frumsýndi sína fyrstu fatalínu á tískuvikunni í New York. Síðan þá hefur mikið vatn til sjávar runnið og er Victoria virtur fatahönnuður í dag.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira