Innlent

Sextán ára fangelsi nær alltaf niðurstaðan í manndrápsmálum

Ásgeir Erlendsson skrifar
Lektor í refsirétti segir að ef miðað er við dómaframkvæmd í manndrápsmálum hér á landi á undanförnum árum skipti engu hvort játning liggi fyrir eða hvort sakborningar séu samvinnuþýðir þegar refsing þeirra er ákveðin. Sextán ára fangelsi sé nær alltaf niðurstaðan, óháð því hvort viðkomandi veiti aðstoð við að upplýsa málið eða ekki.

Játning hefur legið fyrir í meirihluta manndrápsmála sem sakfellt hefur verið fyrir hér á landi á undanförnum áratugum. Þó eru nokkur mál sem komið hafa til kasta dómstóla á síðustu árum þar sem sakborningur neitar sök líkt og Thomas Möller Olsen sem ákærður er fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur hefur gert .

Jón Þór Ólason, lektor í refsirétti, segir að ef horft er til dómaframkvæmdar manndrápsmála skipti engu hvort viðkomandi sé samvinnufús og játar brot sitt eða neitar sakargiftum, þegar kemur að ákvörðun refsingar.

„Meginreglan er sú að ef það eru ekki einhver sérstök refsilækkunarsjónarmið sem koma til álita þá er dæmt sextán ára fangelsi og játning og einhver aðstoð myndu teljast til málsbóta.“

Engin umbun sé veitt fyrir að greiða fyrir rannsókn slíkra mála.

Væri æskilegra að það væri möguleiki á að menn myndu fá einhvers konar umbun fyrir það að vera samvinnuþýðir við rannsókn slíkra mála eða ætti það alls ekkert við?

„Það á náttúrulega að taka það sérstaklega til í niðurstöðu dómsins. En það er yfirleitt svo að þá eru aðrar refsiákvörðunarástæður sem koma einnig til skoðunar, og þá yfirleitt til þyngingar. Þær vegast því út. Þetta er því bara eðlileg framkvæmd,“ segir Jón Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×