Handbolti

Guðmundur Helgi: Valsmenn rotuðu okkur á fyrstu mínútunum

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Guðmundur Helgi á hliðarlínunni í kvöld.
Guðmundur Helgi á hliðarlínunni í kvöld. vísir/ernir

„Við vorum hreinlega rotaðir af Valsmönnum strax á fyrstu mínútunum, við mættum ekki til leiks og ég held að spennufall hafi haft áhrif,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, hreinskilinn er hann var spurður út í útreiðina sem hans menn fengu í kvöld.

„Við vorum yfirspilaðir fyrstu mínútur leiksins á báðum endum vallarins, við snertum þá varla í vörninni og spiluðum varla sókn. Við töpum held ég átta boltum fyrstu tuttugu mínúturnar sem er of mikið gegn liði eins og Val.“

Framarar áttu í stökustu vandræðum með tapaða bolta í fyrri hálfleik.

„Það var eins og boltinn væri sjóðandi heitur þegar við vorum með hann, það vildi enginn hafa hann og ef við sendum hann gekk það illa. Þetta var eiginlega kjánalegt og hálf kómískt,“ sagði Guðmundur og bætti við:

„Svo vorum við að klúðra dauðafærum sem þú mátt ekki gera gegn jafn sterku liði og Val. Þeir eru vel skipulagðir, treysta á hraðaupphlaup og keyrðu á okkur í dag og verðskulda þennna sigur.“

Að sama skapi fengu Valsmenn fjöldan allra auðveldra marka þegar frákastin hrukku í hendur þeirra.

„Ég tel fimm varða bolta sem rata beint upp í hendurnar á þeim og svo fá þeir 8-9 mörk úr hraðaupphlaupum. Þetta eru einhver þrettán mörk sem er einfaldlega allt allt of mikið.“

Guðmundur vonaðist til þess að drengirnir hans myndu læra af þessu.

„Taugarnar voru þandar, það er mikið búið að gerast hjá þessu unga liði. Blaðran sprakk í kvöld en við pumpum í hana á nýjan leik og mætum af krafti í næsta leik. Við þurfum að laga hugarfarið og spennustigið, kannski þarf ég að skoða það hvernig ég undirbý strákanna betur,“ sagði Guðmundur sem var ekki búinn að gefast upp:

„Þetta var bara fyrsta lotan af fimm, þetta er það skemmtilegasta sem við gerum og við höldum bara áfram,“ sagði Guðmundur kátur að lokum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira