Innlent

Búið að loka Öxnadalsheiði og Holtavörðuheiði vegna veðurs

Atli Ísleifsson skrifar
Vetrarástand er á mörgum fjallvegum norðvestanlands.
Vetrarástand er á mörgum fjallvegum norðvestanlands.

Ofsaveður er á Öxnadalsheiði og er hún ófær vegna veðurs. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni. Sömuleiðis er búið að loka Holtavörðuheiði.

Vetrarástand er á mörgum fjallvegum norðvestanlands, svo sem Steingrímsfjarðarheiði, Hálfdán, Bröttubrekku, Holtavörðuheiði. Reiknað er með suðvestan hvassviðri og stormi og að vindurinn verði 19 til 23 metrar á sekúndu í kvöld og í nótt. Þá má búast við skafrenningi og vaxandi éljagangi.

Fyrr í kvöld voru björgunarsveitir kallaðar út vegna fjölmargra ferðalanga í vandræðum á Holtavörðuheiði. Þar valt einnig flutningabíll og var bílstjóri hans fluttur á sjúkrahús með sjúkrabíl.

„Hálkublettir eru á Hellisheiði.

Ófært og stórhríð er á Holtavörðuheiði og opnast hún ekki fyrr en upp úr 7 í fyrramálið 20.04 ef veður leyfir. Hálka og skafrenningur á Bröttubrekku. Á Svínadal er éljagangur og hálkublettir. Hálkublettir eru á Fróðárheiði og Vatnaleið.

Steingrímsfjarðarheiði er ófær. Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er á fjallvegum á Vestfjörðum og víða él og skafrenningur. Óveður og hálka er á Mikladal. Ófært er á Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði.

Á Norðvesturlandi er snjóþekja í Hrútafirði og á Þverárfjalli og hálkublettir og éljagangur á Siglufjarðarvegi og Vatnsskarði. Á Norðausturlandi er óveður og hálka á Öxnadalsheiði og víða hálkublettir og éljagangur.

Það er að mestu greiðfært á Austurlandi en hálkublettir á Öxi og hálkublettir og skafrenningur á Fjarðarheiði.

Greiðfært er með suðausturströndinni,“ segir í tilkynningu frá Vegaferðinni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira