Erlent

Borgar milljónir eftir ásakanir um kynferðislega áreitni

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sjónvarpsmaðurinn Bill O'Reilly.
Sjónvarpsmaðurinn Bill O'Reilly. Vísir/Getty
Þáttastjórnandinn Bill O'Reilly hjá bandarísku Fox News sjónvarpsfréttastöðinni, hefur greitt rúmar 13 milljónir Bandaríkjadollara, ásamt Fox, í sáttagreiðslur til fimm kvenna sem sakað hafa sjónvarpsmanninn um að hafa kynferðislega áreitt sig. Þetta kemur fram í umfjöllun New York Times.

Málin sem um er að ræða hafa komið upp á undanförnum tveimur áratugum. Samkomulag náðist um sáttagreiðslurnar en í stað þeirra lofa konurnar því að „sækja ekki málin frammi fyrir dómstólum eða segja frá þeim.“

Í rannsókn sinni á málinu tóku blaðamenn New York Times viðtöl við á annan tug einstaklinga sem tengjast umræddum málum, meðal annars við aðila sem eru nánir sjónvarpsmanninum og konunum fimm.

Segir meðal annars í umfjölluninni:

„Upplýsingar okkar benda til þess að um mynstur sé að ræða. O'Reilly notfærði sér stöðu sína sem áhrifamikil persóna á fréttastofunni til þess að koma á nánum tengslum við konurnar og bjóða þeim ráð og lofa þeim að vera þeim innan handar og þannig til framdráttar á vinnustaðnum.“

„Eftir það sóttist hann eftir kynferðislegu sambandi við þær og vakti þannig upp ótta hjá þeim að ef þær myndu hafna honum, myndi það hafa neikvæð áhrif á feril þeirra.“

Í tilkynningu frá Fox fyrirtækinu segir meðal annars að fyrirtækið taki aðstæður starfsmanna sinna mjög alvarlega. Tekið er fram að engin kvörtun hafi borist vegna háttalags sjónvarpsmannsins, en þetta hafi þó verið rætt við sjónvarpsmanninn.

Þá hefur O'Reilly jafnframt sjálfur gefið út tilkynningu vegna málsins á heimasíðu sinni þar sem segir meðal annars:

„Rétt eins og annað frambærilegt og umdeilt fólk, þá er ég viðkvæmur fyrir ásökunum og ákærum frá einstaklingum sem vilja að ég borgi þeim til þess að forðast neikvæða umfjöllun.“

„Á tuttugu ára starfsferli mínum hjá Fox sjónvarpsfréttastöðinni, hefur enginn kvartað vegna mín til mannauðsdeildar Fox. Ég er faðir og mér þykir vænt um börnin mín og þess vegna hef ég ákveðið að ganga frá þessum sáttagreiðslum, til þess að hlífa þeim.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×