Fótbolti

Riise stendur með Lagerbäck: „Ekki hans starf, fjandinn hafi það“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Einu sinni var gaman hjá Lars Lagerbäck á Íslandi.
Einu sinni var gaman hjá Lars Lagerbäck á Íslandi. vísir/getty

Lars Lagerbäck, fyrrverandi þjálfari íslenska landsliðsins í fótbolta, tók sökina á sig eftir að Noregur tapaði 2-0 fyrir Norður-Írlandi í frumraun norska liðsins undir hans stjórn í síðustu landsleikjaviku.

Norsku strákarnir fengu mark á sig snemma leiks og misstu hausinn en eftirleikurinn var nokkuð auðveldur fyrir þá norðurírsku. Lagerbäck fékk sinn skerf af gagnrýni fyrir þessa „martröð“ eins og sumir fjölmiðlar uppnefndu leikinn en leikmennirnir hafa einnig verið harkalega gagnrýndir.

Sjá einnig: Bestu þjálfarar Noregs koma Lagerbäck til varnar: „Noregur er ekki fótboltastórveldi“

John Arne Riise, fyrrverandi leikmaður Liverpool og norska landsliðsins, er á þeirri skoðun að leikmönnunum sé um að kenna en ekki Lagerbäck.

„Lagerbäck sagði að það væri hans starf sem þjálfari að passa upp á að leikmenn mættu með rétt viðhorf til leiks. Það er ekki hans starf, fjandinn hafi það,“ segir Riise í hlaðvarpi Top Fotball en Dagbladet greinir frá.

„Ef það eitt að bera fánann á brjóstinu fær þig ekki til að mæta gíraður í landsleik áttu bara að koma þér heim. Bara það að bera fánann á að gefa þér auka kraft. Ég elskaði alltaf að standa í göngunum í norsku treyjunni. Mér var alveg sama hvort ég var að fara að spila við Færeyjar eða einhverja aðra þjóð. Það var alltaf sérstakt að spila fyrir Noreg en maður sér þetta ekki í dag.“

Riise á hreinlega erfitt með að horfa á norska landsliðið í dag sem honum finnst ömurlegt og áhugalaust. Það verður í 86. sæti á næsta heimslista en liðið hefur aldrei veri neðar.

„Það er enginn alvöru karakter í þessu liði. Það eru allir eins. Þegar það er ekkert að gerast í leiknum reyndu þá að tækla einhvern og kveikja aðeins í þessu. Farðu í 50-50 tæklingu eða skjóttu á markið bara til að fá fólkið með þér. Ég er alltaf í sjokki þegar ég horfi á landsliðið spila í dag,“ segir John Arne Riise.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira