Körfubolti

Snæfellsstelpurnar kunna þá list að klára seríur í úrslitakeppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnhildur Gunnarsdóttir, fyrirliði Snæfells.
Gunnhildur Gunnarsdóttir, fyrirliði Snæfells. Vísir/Eyþór
Íslandsmeistarar Snæfells í kvennakörfunni geta í kvöld tryggt sér sæti í úrslitaeinvígi Domino´s deildar kvenna í körfubolta með sigri á Stjörnunni á heimavelli.

Snæfell hefur unnið tvo fyrstu leiki undanúrslitaeinvígis liðanna með 15 og 16 stigum auk þess að vinna sex af sjö leikjum liðanna í öllum keppnum á þessu tímabili.

Það búast því flestir til því að Snæfellsstelpur tryggi sér sæti í lokaúrslitunum fjórða árið í röð enda búnar að vinna fjórtán heimaleiki í röð í úrslitakeppni.

Það er líka önnur sigurganga sem ætti að auka bjartsýni Hólmara fyrir kvöldinu en leikur Snæfells og Stjörnunnar hefst klukkan 19.15 í Stykkishólmi og verður einnig sýndur beint á Stöð 2 Sport 4.

Snæfellsliðið hefur sýnt það undanfarin ár að liðið kann að klára seríur í úrslitakeppninni. Þetta sést vel á því að Snæfellstelpur hafa unnið sex síðustu leiki sína í úrslitakeppni þar sem þær gátu tryggt sér sigur í þeim.

Þessi sigurganga nær allt til ársins 2014 þegar Snæfell tókst ekki að vinna fjórða leik í undanúrslitaeinvígi sínu á móti Vals.

Snæfellstelpur bættu úr því í oddaleiknum og er frá og með þeim leik 6-0 í leikjum þar sem þær gátu unnið seríu í úrslitakeppni.  

Síðasti leikur Snæfells í þessari stöðu var oddaleikurinn á móti Haukum á Ásvöllum fyrir ári síðan. Snæfell vann þá átta stiga sigur, 67-59, og þar með Íslandsmeistaratitilinn þriðja árið í röð.



Síðustu sjö leikir þar sem kvennalið Snæfells gat klárað seríu:

- Undanúrslit 2014 -

Fjórði leikur: 56-82 tap fyrir Val á Hlíðarenda  - tap -

Oddaleikur: 72-66 sigur á Val í Stykkishólmi (vann einvígið 3-2)  - sigur -

- Lokaúrslit 2014 -

Þriðji leikur: 69-62 sigur á Haukum í Stykkishólmi (vann einvígið 3-0)  - sigur -

- Undanúrslit 2015 -

Fjórði leikur: 71-56 sigur á Grindavík í Grindavík (vann einvígið 3-1)  - sigur -

- Lokaúrslit 2015 -

Þriðji leikur: 81-80 sigur á Keflavík í Stykkishólmi (vann einvígið 3-0)  - sigur -

- Undanúrslit 2016 -

Þriðji leikur: 78-71 sigur á Val í Stykkishólmi (vann einvígið 3-0)  - sigur -

- Lokaúrslit 2016 -

Oddaleikur: 67-59 sigur á Haukum á Ásvöllum (vann einvígið 3-2)  - sigur -






Fleiri fréttir

Sjá meira


×