Sport

Gunnar Nelson er kóngurinn í norðrinu og Sunna í öðru sæti

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gunnar Nelson er fremstur í veltivigtinni á Norðurlöndum og í níunda sæti hjá UFC.
Gunnar Nelson er fremstur í veltivigtinni á Norðurlöndum og í níunda sæti hjá UFC. vísir/getty
Gunnar Nelson, fremsti bardagakappi íslensku þjóðarinnar, er í efsta sæti styrkleikalista veltivigtarinnar á Norðurlöndum en hann heldur efsta sætinu frá því síðasti listi var gefinn út í febrúar.

Það er vefsíðan MMAViking.com, sú stærsta og virtast á Norðurlöndum, sem heldur úti þessum lista og hefur gert í sex ár.

Gunnar barðist á móti Bandaríkjamanninum Alan Jouban á UFC-bardagakvöldi í London frá því síðasti listi var gefinn út og vann mjög sannfærandi með hengingartaki í annarri lotu.

Íslenski bardagakappinn drottnar yfir öðrum veltivigtarmönnum á Norðurlöndum en hann er sá eini frá Íslandi, Svíþjóð, Danmörku eða Finnlandi sem er á topp 15 listanum hjá UFC.

Bjarki Þór Pálsson, fyrrverandi Evrópumeistari áhugamanna í MMA, er einn af þeim fimmtán sem gerir tilkall til að komast inn á topp sex listann í veltivigtinni.

Birgir Tómasson, sem keppti í fyrsta sinn sem atvinnumaður í MMA fyrr á árinu og vann glæsilegan sigur, er einnig kominn á radarinn í léttvigtinni en hann er sagður einn þeirra sem gætu gert tilkall til að komast á meðal þeirra sex efstu á næstunni.

Sunna Rannveig Davíðsdóttir, sem vann sinn annan atvinnumannabardaga í Invicta í síðasta mánuði, er næstbest í strávigtinni á Norðurlöndunum samkvæmt lista MMAViking.

Sunna er þar í öðru sæti á eftir Celine Haga frá Noregi en Sunna er á mikilli uppleið eftir tvo sigra í fyrstu tveimur bardögum sínum í Invicta.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×