Innlent

Segist stolt af því að kallast kvótagreifynja

Kristján Már Unnarsson skrifar

Hún kallar sig kvótagreifynju og segist stolt af því, konan sem stýrir einu stærsta útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki Ólafsvíkur. Í frétt Stöðvar 2, sem sjá má hér að ofan, var rætt við Kristínu Vigfúsdóttur, framkvæmdastjóra Valafells. 

Fyrirtækið gerir út fiskiskipið Ólaf Bjarnason, og sérhæfir sig í saltfiskverkun. Hún stofnaði Valafell með eiginmanni sínum, skipstjóranum Birni Erlingi Jónassyni, árið 1969. Hans hlutskipti var að vera á sjónum meðan hún stýrði rekstrinum í landi og nú er hún orðinn einn reyndasti stjórnandi í útgerð og fiskvinnslu hérlendis, - og ein af fáum konum á forstjórastól.

Hjá fyrirtækinu starfa alls um fjörutíu manns, þar af um þrjátíu í landvinnslunni, meirihlutinn Íslendingar, og flestir hafa unnið lengi hjá fyrirtækinu.

Kristín Vigfúsdóttir á skrifstofunni í Valafelli í Ólafsvík. Stöð 2/Sigurjón Ólason.

„Við höfum aldrei selt kvóta, aldrei leigt frá okkur kvóta, - nema kannski skipti. Og það er ekki sanngjarnt að segja að allir séu kvótagreifar, - eða greifynjur, eins og ég segi, - heldur eru þetta yfirleitt hérna á Nesinu hjá okkur fjölskyldufyrirtæki. Og menn vinna óhemju til þess að halda fjölskyldufyrirtækinu gangandi,” segir Kristín. 

Nánar verður rætt við Kristínu í þættinum „Um land allt” á Stöð 2 næstkomandi mánudagskvöld en hann fjallar um útgerðarstöðina Snæfellsbæ.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira