Innlent

Segist stolt af því að kallast kvótagreifynja

Kristján Már Unnarsson skrifar

Hún kallar sig kvótagreifynju og segist stolt af því, konan sem stýrir einu stærsta útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki Ólafsvíkur. Í frétt Stöðvar 2, sem sjá má hér að ofan, var rætt við Kristínu Vigfúsdóttur, framkvæmdastjóra Valafells. 

Fyrirtækið gerir út fiskiskipið Ólaf Bjarnason, og sérhæfir sig í saltfiskverkun. Hún stofnaði Valafell með eiginmanni sínum, skipstjóranum Birni Erlingi Jónassyni, árið 1969. Hans hlutskipti var að vera á sjónum meðan hún stýrði rekstrinum í landi og nú er hún orðinn einn reyndasti stjórnandi í útgerð og fiskvinnslu hérlendis, - og ein af fáum konum á forstjórastól.

Hjá fyrirtækinu starfa alls um fjörutíu manns, þar af um þrjátíu í landvinnslunni, meirihlutinn Íslendingar, og flestir hafa unnið lengi hjá fyrirtækinu.

Kristín Vigfúsdóttir á skrifstofunni í Valafelli í Ólafsvík. Stöð 2/Sigurjón Ólason.

„Við höfum aldrei selt kvóta, aldrei leigt frá okkur kvóta, - nema kannski skipti. Og það er ekki sanngjarnt að segja að allir séu kvótagreifar, - eða greifynjur, eins og ég segi, - heldur eru þetta yfirleitt hérna á Nesinu hjá okkur fjölskyldufyrirtæki. Og menn vinna óhemju til þess að halda fjölskyldufyrirtækinu gangandi,” segir Kristín. 

Nánar verður rætt við Kristínu í þættinum „Um land allt” á Stöð 2 næstkomandi mánudagskvöld en hann fjallar um útgerðarstöðina Snæfellsbæ.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira