Innlent

Verklag vegna hryðjuverkaárása virkjað hérlendis

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Sérsveitarmönnum fjölgað og lögregluliðum bent á að vera á varðbergi. Myndin er úr safni.
Sérsveitarmönnum fjölgað og lögregluliðum bent á að vera á varðbergi. Myndin er úr safni. vísir/vilhelm
Greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur ákveðið að virkja verklag vegna hryðjuverkaárása í nágrannalöndum vegna árásarinnar í miðborg Stokkhólms í dag. Viðbúnaðarstig verður ekki hækkað að svo stöddu.

Ríkislögreglustjóri hefur jafnframt beint því til lögreglunnar á Suðurnesjum að vera sérstaklega vakandi vegna flugs frá Svíþjóð. Hann tekur fram í tilkynningu að ekki séu fyrirliggjandi upplýsingar þess efnis að á leið til landsins séu grunaðir aðilar, heldur sé um öryggisráðstafanir að ræða.

Þá hefur verið ákveðið að fjölga sérsveitarmönnum á vakt um helgina og því hefur verið beint til lögreglumanna að vera á varðbergi gagnvart grunsamlegum einstaklingum og óvenjulegum atburðum sem gætu tengst áformum um stórfellda ofbeldisglæpi.

Greiningardeild og alþjóðadeild ríkislögreglustjóra fylgjast með samskiptakerfum við erlend lögreglulið og öryggisstofnanir og fjölmiðlum og munu meta stöðuna eftir því sem upplýsingar berast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×