Sport

Top Reiter með yfirburði

Telma Tómasson skrifar

Jakob Svavar Sigurðsson átti góðu gengi að fagna á lokakvöldi Meistaradeildar Cintamani í hestaíþróttum í gærkvöldi, en keppt var í tölti og flugskeiði í Samskipahöllinni í Kópavogi. Úrvalshryssa hans, Gloría frá Skúfslæk, var af mörgum álitin betri en nokkru sinni fyrr og hlaut Jakob Svavar annað sætið í tölti eftir frábæra sýningu.

Jakob Svavar var efstur að stigum í einstaklingskeppninni fyrir lokakvöldið og hlaut 10 stig fyrir árangur sinn í töltkeppninni. Hann fór hins vegar stigalaus út úr keppninni í flugskeiði og þurfti því að eftirláta tvö efstu sætin öðrum knöpum, þeim Bergi Jónssyni og Árna Birni Pálssyni, en sjálfur hafnaði hann í þriðja sæti.

Keppnisárið byrjar þó með stæl hjá Jakobi Svavari og Gloríu, en hann stefnir með hana á úrtöku fyrir heimsmeistaramót í hestaíþróttum sem fer fram í Hollandi í ágúst. Ekki var síðra árangur liðs Jakobs Svavars, Top Reiter, en það varð stigahæst í liðakeppninni með 439.5 stig og hafði þó nokkra yfirburði.

Sýnt var frá Meistaradeild Cintamani í beinni útsendingu á Stöð 2 sport og má sjá valin augnablik frá lokakvöldinu á meðfylgjandi myndskeiði.

Niðurstöður A-úrslita í tölti voru eftirfarandi:
1 Bergur Jónsson Katla frá Ketilsstöðum                              8.83
2 Jakob Svavar Sigurðsson Gloría frá Skúfslæk                     8.78
3 Guðmundur Friðrik Björgvinsson Straumur frá Feti           8.61
4 Ásmundur Ernir Snorrason Spölur frá Njarðvík                  8.39
5 Árni Björn Pálsson Skíma frá Kvistum                                8.28
6 Viðar Ingólfsson Pixi frá Mið-Fossum                                7.89

Einstaklingskeppni Meistaradeildar í hestaíþróttum 2017
1. Bergur Jónsson        45 stig
2. Árni Björn Pálsson      45 stig
3. Jakob S. Sigurðsson   43.5 stig

Liðakeppni Meistaradeildar í hestaíþróttum 2017
1. Top Reiter 439.5 stig
2. Hestvit / Árbakki / Svarthöfði 367.5 stig
3. Gangmyllan 351 stig
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira