Innlent

Guðlaugur mun hitta Boris Johnson

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. Vísir/Ernir
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, mun hitta Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, um miðjan mánuð og ræða við hann um samskipti ríkjanna í kjölfar útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. RÚV greinir frá.

Ráðherra, sem segist vera bjartsýnn að eðlisfari, segir að markmiðið með viðræðunum sé að láta í ljós vilja Íslendinga til þess að fá betri aðgang að breskum mörkuðum heldur en í dag. 

Hann bendir á að það sé vilji breskra stjórnvalda að gera fríverslunarsamninga við sem flest ríki og að það gagnist Íslendingum, enda sé um að ræða fimmta stærsta hagkerfi heims.

Hann segir það óhugsandi fyrir Ísland að hafa ekki aðgang að hinum stóra markaði sem Bretland sé.

„Við erum ekki með fullan aðgang að breskum markaði núna. við erum með tolla á ýmsum afurðum, til dæmis fiski. Bretland er eitt mikilvægasta viðskiptaland okkar og hefur verið miklu lengur en tíð þeirra í ESB.“

Guðlaugur tekur fram að nægur tími sé til stefnu, og fundurinn með Boris verði fyrst og fremst nýttur til þess að fara yfir stöðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×