Skoðun

Rán um hábjartan dag

Torfi H. Tulinius skrifar
Ríkisstjórn Bjartrar framtíðar og ríku frændanna boðar fimm ára áætlun í fjármálum ríkisins sem gengur í berhögg við fyrri yfirlýsingar um endurreisn heilbrigðiskerfis og sókn í menntamálum. Það á ekki að bæta úr rekstrarvanda sjúkrastofnana. Menntakerfið mun búa við skort. Kjör öryrkja verða áfram til skammar og ólíðandi fátækt látin viðgangast í landinu. Þessi áætlun svíkur því flest loforð sem flokkarnir þrír gáfu fyrir kosningar. Í raun réttri er hún lítt dulbúin áform um stórfelldan þjófnað, því með henni á að láta þjóðarauðinn renna að mestu til fámennrar auðstéttar.

Um samfélagið flæða nú peningar sem verða til í krafti vinnu almennings, auðlinda í eigu þjóðarinnar og erlendra gesta sem vilja njóta landsins fagra sem við tókum í arf. Arðurinn hafnar að mestu í vösum ríka fólksins, vegna þess að við búum ekki við skattkerfi í líkingu við hin norrænu ríkin, með hæfilegum auðlinda­gjöldum, fjármagns- og hátekjusköttum og eðlilegri endurdreifingu verðmæta í gegnum menntun, velferð og heilbrigðisþjónustu.

Mikill hagvöxtur sem nú setur svip á þjóðlífið fer því mest í að efla sjóði auðmanna fremur en hlúa að ungu kynslóðinni, öldruðum og öryrkjum um leið og búið er í haginn fyrir framtíðina með menntun, rannsóknum og nýsköpun. Ríka fólkið skapaði ekki þennan auð en hirðir stærstan hluta hans.

Úrelt hagfræði og hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar réttlæta ránið. Svo er talað um aðhald gegn þenslu. Gegn ofhitnun hagkerfisins væri nær að beita skattkerfinu fremur en að skera niður til velferðar-, heilbrigðis- og menntamála.

Fjármálaáætlun ríku frændanna er fyrirætlun um arðrán og misskiptingu. Auðmenn geta vel við unað, því þeir eiga sér trygga framtíð í þjóðarauðnum sem þeir hafa sölsað undir sig; og ef hann bregst, í leynireikningum erlendis. Þeim er líka alveg sama um þig, lesandi góður, um börn þín og framtíð þeirra. Það er sorglegt að þingmenn Bjartrar framtíðar og aðrir í meirihlutanum skuli styðja áætlun sem er bæði siðlaus og andstæð þjóðarhag.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×