Gagnrýni

Gullfalleg að utan en nánast laus við töfra að innan

Tómas Valgeirsson skrifar
Dan Stevens þykir standa sig vel í krefjandi hlutverki sem Beast.
Dan Stevens þykir standa sig vel í krefjandi hlutverki sem Beast. NORDICPHOTOS/AFP
Flestir sem ekki hafa búið undir grjóti í áraraðir kunna söguna um Fríðu og dýrið. Nú, þökk sé Disney, eru heilu kynslóðirnar sem þekkja ævintýrið í vissu formi þar sem ákveðinn lagalisti, tiltekin umgjörð og formúla fylgir með sterkustu minningum þessarar sögu.

Teiknimyndin Beauty and the Beast frá 1991 er ekki bara eitthvert barn síns tíma sem ákveðnum hópum er annt um, heldur er hún venjulega talin á meðal vandaðri verka fyrirtækisins og þar að auki fyrsta teiknimyndin í sögunni til þess að hljóta Óskarstilnefningu í flokki bestu myndar. Ef varan er ekki biluð er lítil ástæða til þess að laga hana.

Verðmiði á nostalgíuna

Seinustu árin hefur Disney-teymið hins vegar skellt í hágír með átakið að tína úr gamla sarpinum og flytja gömlu teiknimyndirnar í leikið form og mun slíkum myndum aðeins fara fjölgandi á næstu árum – því nýir hlutir eru víst ákaflega ofmetnir hjá kvikmyndaverum. Minna snýst þetta orðið um að gera eitthvað nýtt við gamalt og meira að setja nýjan verðmiða á nostalgíuna.

Beauty and the Beast er nánast í sérflokki þarna, þar sem hún er byggð á sígildu teiknimyndinni en er gefið glænýtt líf, með sömu lögum, sama stíl, sömu samræðum og gengur hún nánast alfarið út á það að minna áhorfendur á allt sem þeir elskuðu við upprunalegu myndina. Vissulega eru einhverjar viðbætur en á sköpunarstigi má segja að flest það jákvæða við þessa „aðlögun“ skrifist á hina útgáfuna.

Lögin gömlu eru enn frábær en í handriti þessarar endurgerðar er komið fram við helstu þætti frásagnarinnar eins og efni sem þarf að haka við af tékklista frekar en að það haldi sér á floti á eigin sjarma. Sumar viðbæturnar – eins og glænýr formáli, ný söngnúmer og auka baksögur – virka meira eins og uppfyllingar heldur en kaflar sem styrkja eða dýpka söguna.

Það er sama hversu miklum peningum er kastað í umgjörðina, ef Fríða sjálf getur ekki sungið eða straumarnir á milli aðalleikaranna tveggja eru takmarkaðir er erfitt að komast hjá þeim kjánahrolli sem getur myndast fyrir vikið. Það skiptir engu hvaða lógík áhorfandinn þarf að taka í sátt, ef aðal sögunnar gengur ekki upp, þá stendur bara tómt skraut eftir, nema nú með tilheyrandi lögum sem auðvelt er að fá á heilann.

Leikaravalið er ekki af verri endanum en ekki veit ég hver fékk þá ranghugmynd að Emma Watson myndi smellpassa í hlutverk Belle. Hún reynir sitt besta til að lifa sig inn í í hlutverkið af miklum eldmóði en flutningur hennar verður oftar en ekki stirður og ósannfærandi. Aldrei tók ég hana í sátt í rullunni og enn síður þegar hún reynir að þenja sig upp á háu nóturnar í þeim lögum sem hún fær. 

Dýrið stórfínt

Dan Stevens er annars stórfínn sem marglaga dýrið og reynir eins og hann getur að hleypa tilfinningum í gegnum heldur truflandi, stafrænt gervi sem mun ábyggilega ekki eldast vel. Luke Evans og Josh Gad eru líflegir og fyndnir sem taumlausa egógerpið Gaston og aðstoðarmaður hans, LeFou. Það liggur við að sé meira um strauma hjá Gaston og LeFou heldur en hjá Belle og dýrinu. Evans er allavega meistaralega sjálfumglaður á réttan hátt og með fínustu rödd, þó svo að lofsöngurinn um illmennið passi ekki alveg við leikarann þegar notaðir eru sömu textar. Í teiknimyndinni var Gaston byggður eins og fjall, en það er sama hversu flottu formi Evans er í, hann nær ekki alveg að koma til skila tröllvaxna kraftamenninu sem hann á að vera. Annars er lítið út á raddhlutverkin að setja.

Emma Thompson og Ian McKellen eru kærkomin í hópinn en Ewan McGregor er úti á túni með hreim franskrar staðalmyndar.

Mögulega gengur þessi endurvinnsla best upp hjá öllum sem eiga sér enga tengingu við teiknimyndina og enn betur ætti hún að virka á þá sjö einstaklinga sem hafa aldrei séð hana. Afraksturinn er eins konar blanda af áhrifalausu glysi og meinlausri afþreyingu sem erfitt er að láta sér leiðast yfir sökum skrautsins. En „meira“ er ekki alltaf ávísun á betra og það er því miður fátt sem tekst að afreka á tveimur tímum í þessari mynd sem ekki var gert þrefalt betur efnislega á tæpum níutíu mínútum í upprunalegu myndinni.

Niðurstaða: Umgjörðin og tónlistin kemur prýðilega út en Watson er kolvitlaus manneskja í aðalhlutverkið og heildin hverfur langt inn í skugga fyrirmyndar sinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×