Erlent

Bretar búa sig undir að færa lögin heim

Guðsteinn Bjarnason skrifar
David Davis, Brexitráðherra bresku stjórnarinnar.
David Davis, Brexitráðherra bresku stjórnarinnar. vísir/epa
Bresk stjórnvöld búa sig nú undir að færa ákvæði þúsunda reglugerða og tilskipana frá Evrópusambandinu, sem hafa sem slík haft gildi í Bretlandi, beint inn í bresk lög – og þurfa að vera búin að því áður en úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu tekur gildi.

David Davis, sem fer með málefni útgöngu Bretlands úr ESB í ríkisstjórn Theresu May, gerði breska þinginu stuttlega grein fyrir þessum áformum í gær.

Hann sagði þessar breytingar jafnframt þýða að lögsaga Evrópudómstólsins næði ekki lengur til Bretlands.

„Lögin okkar verða þá samin í London, Edinborg, Cardiff og Belfast og ekki túlkuð af dómurum í Lúxemborg heldur af dómurum í Bretlandi,“ sagði hann á þingi, samkvæmt frásögn BBC.

Breski Verkamannaflokkurinn, sem er í stjórnarandstöðu, hefur áhyggjur af því að þingið fái ekki að fylgjast nógu vel með þessum breytingum.

Seint í gærkvöldi undirritaði Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, bréf þar sem hún fór með formlegum hætti fram á að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin í Skotlandi um aðskilnað landsins frá Bretlandi. Hefur Sturgeon sagt að Skotar eigi að fá að velja sína framtíð í kjölfar Brexit-atkvæðagreiðslunnar. Alls voru 62 prósent Skota á þeirri skoðun að Bretar ættu ekki að ganga út úr ESB. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×