Skoðun
Helgi Lárusson
formaður FENÚR

Endurvinnsla

Fagna ber skýrslu hagfræðistofnunar HÍ um möguleika Íslands til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hún er fróðleg og upplýsandi og ættu því allir að gefa sér tíma til að lesa hana. Varðandi úrgangsmál segir í skýrslunni: „Hlutfall úrgangs í heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda árið 2014 var 6%. Útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá úrgangi á að mestu uppruna sinn að rekja til urðunarstaða víðsvegar um landið.“ Heildarútstreymi CO2 í dag vegna úrgangs er nálægt 220 þús. tonnum. Ýmsar leiðir voru nefndar til að minnka þetta útstreymi og ber að fagna því. Eitt er það sem bæta mætti við þessa skýrslu og það er kolefnis­ávinningur af endurnotkun, minni sóun og endurvinnslu úrgangs. Margvíslegt notagildi er af endurvinnslu, hún sparar m.a. orku, hráefni, kemur í veg fyrir að eiturefni berist í umhverfið og sparar því útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Einnig kemur endurvinnsla í veg fyrir urðun. Skoðum dæmi um ávinning. Endurvinnsla kopars, áls og tins sparar frá 85-99% af þeirri orku sem þarf í frumvinnslu þeirra. Endurvinnsla tonns af stáli sparar 1,1 tonn af járngrýti, 630 kg af kolum og 55 kg af kalksteini. Endurvinnsla eins tonns af plasti sparar um 2.600 lítra af olíu, endurvinnsla tonns af pappír sparar ígildi 31 trés og 270 lítra af olíu og svo mætti áfram halda (bir.org). Er þá ótalin ýmis önnur endurvinnsla eins og á textíl, hjólbörðum o.fl. Erfitt er að nálgast hver heildar­ávinningur CO2 spörunar er af endurvinnslu frá Íslandi. Tölur fyrir heildarávinning af endurvinnslu drykkjar­umbúða úr plasti og áli frá Íslandi hefur þó verið áætlað að nemi um 12 þúsund tonnum CO2 á ári (Efla). Ljóst er því að þessi ávinningur er verulegur. FENÚR (fagráð um endurvinnslu og úrgangsmál) ætlar sér að stuðla að framþróun í úrgangsmálum. M.a. hefur verið haldin sýning og ráðstefna undir heitinu „Saman gegn sóun“. FENÚR hvetur alla landsmenn til að að flokka, endurnota og nota minna.
Skoðun

Sjá meira