Körfubolti

Lakers-menn stóðu í meisturunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kyrie Irving og LeBron James voru magnaðir í nótt.
Kyrie Irving og LeBron James voru magnaðir í nótt. Vísir/Getty
Meistarar Cleveland Cavaliers þurftu að hafa fyrir sigri sínum á LA Lakers í NBA-deildinni í nótt en lönduðu að lokum fimm stiga sigri, 125-120.

Lakers var mest ellefu stigum yfir í fjórða leikhluta en Cleveland átti betri endasprett og kláraði leikinn. Kyrie Irving skoraði 46 stig fyrir Cleveland og átti sannkallaðan stórleik. LeBron James bætti við 34 stigum.

Lakers er í botnsæti vesturdeildarinnar og Cleveland á toppnum í austrinum. Vandræði meistaranna komu því á óvart en þar sem lykilmenn voru hvíldir í leiknum á undan áttu þeir nóg eftir á tankinum í fjórða leikhluta, er Cleveland skoraði 43 stig.



D'Angelo Russell skoraði 40 stig fyrir Lakers sem er persónulegt met hjá honum. Lakers hefur nú tapað fimm leikjum í röð og þrettán af síðustu fjórtán.

Cleveland er í efsta sæti austurdeildarinnar með 46 sigra en liðið hefur unnið aðeins fimm af síðustu tíu leikjum sínum.



Portland vann Miami, 115-104, en Damien Lillard fór á kostum í liði gestanna og skoraði 49 stig. Hann setti niður níu þriggja stiga skot í leiknum og er nú kominn í 1002 alls á ferlinum.

Stigahæstur hjá Miami var James Johnson með 24 stig en lið Miami hafði aðeins tapað einum af síðustu sextán heimaleikjum sínum á undan.

Bæði lið eru í níunda sæti sinna deilda - Portland í vesturdeildinni og Miami í austrinu.



Úrslit næturinnar:

Brooklyn - Dallas 104-111

Philadelphia - Boston 105-99

Detroit - Phoenix 112-957

New Orleans - Minnesota 123-109

Toronto - Indiana 116-91

Miami - Portland 105-115

San Antonio - Sacramento 118-102

LA Lakers - Cleveland 120-125

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×