Innlent

Fjórir handteknir fyrir fíkniefnaframleiðslu í Kópavogi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það var í ýmsu að snúast hjá lögreglunni í gær og í nótt.
Það var í ýmsu að snúast hjá lögreglunni í gær og í nótt. vísir/Ernir
Klukkan rétt rúmlega 22 í gærkvöldi handtók lögreglan fjóra menn vegna gruns um að hafa staðið að fíkniefnaframleiðslu (ræktun) í Kópavogi. Var framleiðslan stöðvuð og mennirnir vistaðir í fangageymslu fyrir rannsókn málsins að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Skömmu áður hafði lögreglan handtekið þrjá unga menn á lokuðu athafnasvæði Eimskipa við Sundahöfn. Mennirnir eru kærðir fyrir húsbrot og voru vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.

Þá var tilkynnt um þjófnað úr verslun við Lækjargötu laust eftir klukkan 20 í gærkvöldi. Maður stal tveimur dýrum úlpum og var handtekinn skömmu síðar með þýfið. Hann er einnig grunaður um vörslu fíkniefna og var vistaður í fangageymslu.

Rétt fyrir klukkan hálfsex í gær voru svo fimm ölvaðir ungir menn handteknir við Kleppsveg. Þeir eru grunaðir um að hafa stolið bíl, eignaspjöll og ölvun við akstur. Þeir voru vistaðir í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×