Tíska og hönnun

Breytir þekktum vörumerkjum í rúnaletur

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Sigurður vann rúnaletur fyrir Sturla Atlas og þar byrjaði þetta allt.
Sigurður vann rúnaletur fyrir Sturla Atlas og þar byrjaði þetta allt. Vísir/Ernir
„Í verkefninu er því velt upp í eins­ konar hlið­stæðum veruleika, hvernig þekktustu og fallegustu merki Íslands­sögunnar gætu litið út ef við hefðum ekki tekið upp rómverska stafrófið og notuðumst enn einungis við rúnaletur eins og það leit út fyrir meira en þúsund árum,“ segir hönnuðurinn Sigurður Oddsson en hann sýnir verkið Rúnamerki í HönnunarMars. Í verkefninu breytir hann merkjum sem allir Íslendingar þekkja í einskonar rúnaútgáfu þess.

„Þannig getum við lært að lesa og skrifa á rúnaletri út frá okkar ástsælustu vörumerkjum, og heiðrum þennan menningararf sem hefur að mestu leyti horfið í okkar nútímamenningu. Í verkefninu eru nokkur af þekktustu merkjum Íslandssögunnar endur­teiknuð í rúnaletri og sett í samhengi við samtíma sinn í myndum.“

Hvaðan kemur þessi hugmynd eiginlega?

„Þetta hófst allt með því að ég teiknaði merki í rúnum fyrir Sturlu Atlas sem ég hef verið að vinna útlit fyrir um nokkurt skeið, og fannst ég þurfa að prófa mig meira áfram með það. Aðallega var það til að skemmta sjálfum mér að læra hvernig stafir í eldra fúþark-stafrófinu áttu sér hliðstæður í latneska stafrófinu sem við notum í dag, og hvernig orð urðu hálf-læsileg þegar maður yfirfærði í rúnaletur.

Eldri baksagan af áhuga mínum á rúnum er sú að í útskriftarferð minni úr listaháskólanum fórum við til Istanbúl þar sem ég sá með eigin augum eins konar veggjakrot víkinga í Hagia Sophia. Þar er rist í stein ‘Hálfdan var hér’ eða eitthvað á þá leið. Þetta er frá 9. öld og var líklega gert af norrænum mönnum, en ég man að mér fannst asnalegt að ég kunni ekki að lesa rúnirnar sjálfur.

Önnur vísun er að endurskapa þau hrif sem verða þegar merki sem maður þekkir eru skrifuð í letri sem maður kann ekki að lesa, t.d. það að sjá coca-cola skrifað á arabísku eða hebresku, en maður þekkir samt merkið. Mig langaði að skapa þessi áhrif með fúþark-rúnaletri, bæði til að skapa eins konar hliðstæðan veruleika, og að fólk gæti fengið innsýn í þennan menningararf sem hefur gleymst að miklu leyti að mínu mati.“

Björnsbakarí í rúnaletri.Mynd/Siggi Odds
Hvers vegna velurðu íslensk vörumerki til að breyta? 

„Þetta verkefni var fyrst og fremst til gamans gert, en vonandi vekur það fólk til vitundar um þennan menningararf sem hefur að miklu leyti gleymst. Að nota merki sem fólk kannast við hjálpar fólki að geta lesið úr þeim, og komast að því hvaða stafur táknar hvern á einfaldan hátt. Þetta var líka hugsað til þess að upphefja nokkur af mínum íslensku uppáhaldsmerkjum, og þau merki sem mér finnst vera rist mjög djúpt í þjóðarsálina.“

Ertu ekki orðinn nokkuð sleipur í rúnum? 

„Eins og ég hef nefnt hef ég einskorðað mig við eldra fúþark-stafrófið, vegna þess hve vel það samsvarar því sem við notum í dag, ásamt því að vera fallegast að mínu mati, af þeim útgáfum rúnaleturs sem voru í notkun hérlendis. Ég er búinn að æfa mig í að teikna upp þessi stafaform nokkuð oft og get því munað hvaða stafir eiga hvaða hliðstæðu í latneska stafrófinu, og er orðinn ágætur í að rissa þetta upp eftir minni líka,“ segir Sigurður en hann verður væntanlega farinn að rissa nafnið sitt með hnífum í erlendar kirkjur áður en við vitum af.

Sýning Sigga verður haldin í Þjóðminjasafninu miðvikudaginn næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×