Erlent

Ný eldflaugatilraun Norður-Kóreu til marks um árangur

Samúel Karl Ólason skrifar
Norður-Kórea gerði í gær tilraun með nýjan eldflaugarhreyfil sem nágrannar þeirra í suðri segja til marks um „þýðingarmikinn árangur“.
Norður-Kórea gerði í gær tilraun með nýjan eldflaugarhreyfil sem nágrannar þeirra í suðri segja til marks um „þýðingarmikinn árangur“. KCNA

Norður-Kórea gerði í gær tilraun með nýjan eldflaugarhreyfil sem nágrannar þeirra í suðri segja til marks um „þýðingarmikinn árangur“. Markmið einræðisríkisins er að þróa eldflaugar sem þeir gætu notað til að skjóta kjarnorkuvopnum að Bandaríkjunum. Fyrr í mánuðinum skaut Norður-Kórea fjórum eldflaugum að Japan þar sem þeir æfðu kjarnorkuárás á herstöðvar Bandaríkjanna í Japan.

Yfirvöld í Norður-Kóreu segja hreyfilinn sem prófaður var í gær geta gert ríkinu kleift að skjóta gervihnöttum á loft jafnvel og bestu þjóðir heimsins. Þar með væri hægt að nota hreyfilinn á svokallaðar Intercontinental ballistic eldflaugar (ICBM). Með þeim gæti Norður-Kórea hugsanlega gert kjarnorkuárásir víða um heiminn.

Yfirlit yfir eldflaugar Norður-Kóreu. Vísir/GraphicNews

Talsmaður varnarmálaráðuneytis Suður-Kóreu sagði blaðamönnum í dag að enn þyrfti að gera rannsóknir varðandi hreyfilinn, en staðfesti ekki að hægt væri að nota hreyfilinn á ICBM-eldflaug.

Tilraunin var gerð í kjölfar yfirlýsingar Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um að fyrirbyggjandi árásir á Norður-Kóreu koma til greina. Tillerson hefur verið í heimsóknum víða í Asíu.

Þrátt fyrir fjölmargar eldflaugatilraunir og fimm kjarnorkuvopnatilraunir frá 2006 eru sérfræðingar ekki sammála um getu Norður-Kóreu. Hins vegar er ljóst að ríkið hefur náð árangri. Yfirvöld í Norður-Kóreu segja að vísindamönnum þeirra hafi tekist að minnka kjarnorkusprengju svo mikið að hægt væri að koma henni fyrir í ICBM-eldflaug.

Sérfræðingar hafa þó dregið þær yfirlýsingar í efa. Ekki er nóg að gera sprengjuna minna, heldur þyrfti hún einnig að þola gífurlega mikinn þrýsting, hita og titring sem myndi myndast við endurkomu vopnsins inn í gufuhvolf jarðarinnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira