Innlent

„Ferðaþjónustan er ekki bóla sem mun springa“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Helga Árnadóttir er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Helga Árnadóttir er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að horfa þurfi á heildarmyndina þegar rætt er um ferðaþjónustuna og framtíð hennar hér á landi. Hún hafi vissulega þungar áhyggjur af því að ferðaheildsalar séu byrjaðir að afbóka ferðir hingað til lands vegna óhagstæðs gengis enda sé það nýtt.

Helga ræddi þessi mál í Bítinu í morgun. Hún segir ferðaþjónustuaðila ekki vilja fækka ferðamönnum á þeim forsendum að hingað sé of dýrt að koma, en eins og ítrekað hefur verið fjallað um hefur ferðamönnum fjölgað gríðarlega hér á seinustu árum. Er því spáð að það komi 2,3 milljónir ferðamanna hingað til lands í ár.

„Við viljum ekki fækka ferðamönnum á þessum forsendum og ef við stöndumst ekki upplifunina hjá þeim sem koma. Ef verðlagning og gæði fara ekki saman þá erum við komin í óefni því greinin á svo mikið undir orðsporinu,“ sagði Helga. Hins vegar væri það ljóst að það að fá á sig 25 til 30 prósent högg á nokkrum mánuðum bæði hvað varðar gengisþróun og launaþróun gangi ekki til lengdar.

Ekki hrun í ferðaþjónustunni framundan

„Við höfum áhyggjur af þessari þróun. Við horfum til þess að ferðaþjónustuvörurnar eru að hækka um tugi prósenta horft fram í tímann núna þannig að við höfum stórkostlegar áhyggjur en á sama tíma vil ég vera bjartsýn og markaðirnir eru með mismunandi verðteygni. [...] En hvað varðar „er ekki bara fínt að fækka þeim,“ og allt þetta... þó að við séum að hafa áhyggjur þá erum við ekki að horfa á eitthvað hrun í íslenskri ferðaþjónustu,“ sagði Helga.

Hún sagði mikilvægt að staldra við og horfa á heildarmyndina, hvernig eigi að byggja greinina upp til framtíðar og tryggja verðmætasköpun í henni. Aðspurð hverjir eigi að horfa heildarmyndina með ferðaþjónustunni benti Helga á stjórnvöld og sveitarfélögin.

Ferðamennirnir ekki eins og olía Norðmanna

„Það er ofboðslega mikið undir. [...] Maður hugsar að menn telji ferðamennina af því að þeim hafi fjölgað svo mikið að þeir séu eins og olía Norðmanna að við getum bara skrúfað örlítið frá og fyrir eins og okkur hentar en það er bara ekki þannig. [...] Þannig að það hlýtur að vera á ábyrgð stjórnvalda að koma af fullri alvöru og ábyrgð að borðinu því að lokum hlýtur þetta að vera hugmyndin um að tryggja verðmætasköpunina í landinu því það er svo það sem við byggjum hagsældina á.“

Þá tók hún undir það með þáttastjórnendum að þetta væri því miður eitthvað sem hefði oft verið rætt áður.

„Það er svolítið það sem manni hefur fundist síðustu mánuði og ár svo sem eins og stjórnvöld, Seðlabankinn eða hver það er bara hafi ekki haft fulla trú á greininni, haldi að þetta sé einhver bóla sem muni springa en ferðaþjónustan er ekki bóla sem mun springa.“

Hlusta má á viðtalið við Helgu í heild sinni í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir

Er Ísland dýrasta land í heimi?

Erlendir ferðamenn sem hingað koma hafa kvartað yfir háu verðlagi og þá hafa fyrirtæki í ferðaþjónustu haft áhyggjur af mikilli styrkingu krónunnar. Við erum komin að ýmsum þolmörkum í hagkerfinu þegar ferðaþjónustan er annars vegar. Er Ísland uppselt? Og er Ísland dýrasta land í heimi?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×