Erlent

Brexit-ferlið hefst formlega 29. mars

Atli Ísleifsson skrifar
Theresa May er forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May er forsætisráðherra Bretlands. Vísir/AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, mun formlega greina Evrópusambandinu frá því að Bretland ætli sér að ganga úr sambandinu á miðvikudaginn í næstu viku, 29. mars.

May hyggst greina stjórnvöldum í öðrum aðildarríkjum sambandsins frá þessu í bréfi þar sem forsætisráðherrann mun segjast vona að viðræður geti hafist eins fljótt og auðið er.

Bresk stjórnvöld munu með þessu virkja 50. grein Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins, en þá munu tveggja ára viðræður hefjast þar sem samið verður um útgöngu Bretlands. Samkvæmt þessari tímaáælun mun Bretland ganga úr sambandinu í mars 2019.

Um níu mánuðir eru nú liðnir frá því að tæp 52 prósent breskra kjósenda greiddu atkvæði með útgöngu Bretlands úr sambandinu.

Í frétt BBC segir að talsmaður breskra stjórnvalda hafi greint frá því í morgun að sendiherra Bretlands gagnvart Evrópusambandinu, Sir Tim Barrow, hafi sagt Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs ESB, frá því í morgun að breska stjórnin muni virkja 50. greinina á miðvikudaginn í næstu viku.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira