Erlent

Myrt eftir að hafa ítrekað leitað til lögreglu út af áreiti fyrrverandi kærasta

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Shana Grice.
Shana Grice.
Shana Grice var nítján ára gömul þegar hún var myrt í svefnherberginu sínu í Portslade í Sussex á Englandi í ágúst síðastliðnum. Hún hafði verið skorin á háls og svo hafði verið kveikt í herberginu en fyrrverandi kærasti hennar, Michael Lane, var ákærður fyrir morðið og fara réttarhöldin nú fram við Lewes Crown-dómstólinn en Lane neitar sök í málinu.

Fram kom við réttarhöldin fyrir helgi að að Grice hafði ítrekað leitað til lögreglunnar vegna þess að hún óttaðist Lane. Sagði hún lögreglunni í febrúar, hálfu ári áður en hún var myrt, að hann sæti um hana og hefði falið sig í kringum heimili hennar.

Þá hefði hann sent henni blóm og skilið eftir miða á bíl á þáverandi kærastanum hennar, sem hún hafði byrjað að hitta eftir að hún og Lane hættu sama, þar sem á stóð: „Shana mun alltaf halda fram hjá þér.“ Lane á að hafa átt mjög erfitt með að sætta sig við sambandsslit hans og Grice og nýja sambandið hennar. Á hann að hafa sagt við vin sinn: „Hún mun borga fyrir það sem hún hefur gert.“

Refsuðu Grice fyrir að eyða tíma lögreglunnar

Lane neitaði því í mars að hafa ráðist á Grice og reytn að taka af henni símann hennar. Hann sýndi lögreglunni skilaboð frá henni þar sem hún sagðist vilja vera áfram með honum.

Lögreglan tók vægast sagt lítið mark á Grice og refsuðu henni í eitt sinn fyrir að eyða tíma lögreglunnar með fölskum ásökunum á hendur Lane og fyrir að hafa ekki sagt frá því að hann væri fyrrverandi kærastinn hennar.

Michael Lane.
Þann 9. júlí fékk Lane hins vegar viðvörun og var sagt að halda sig frá heimili Grice þar sem hann hafði stolið lykli að húsinu og farið inn til að horfa á hana sofa. Daginn eftir tilkynnti Grice að í hana hefði verið hringt nokkrum sinnum úr óþekktu númeri og í eitt skiptið hefði verið andað hátt í símann. Lögreglan sagði henni hins vegar að málið yrði ekki rannsakað frekar og hún fékk sömu skilaboð tveimur dögum seinna þegar hún tilkynnti að Lane hefði elt hana.

„Það er augljóslega eitthvað ekki í lagi“

Við réttarhöldin var spiluð upptaka af símtali milli Grice og Lane þar sem hún spurði hann út í þessa undarlegu hegðun hans og hann svaraði því til að það væri eitthvað ekki í lagi með hann. Hún stakk upp á því að hann leitaði sér hjálpar hjá sálfræðingi.

„Það er augljóslega eitthvað ekki í lagi en ég veit ekki hvað það er. Ég þarf að finna út úr því, eða láta loka mig inni eða eitthvað,“ sagði Lane þá.

Lane neitar sök í málinu eins og áður segir en fyrir liggur að hann kom að Grice þar sem hún var lá í blóði sínu í rúminu í herberginu sínu. Lane sagði fyrir dómi að honum hefði ekki dottið í hug að hringja á neyðarlínuna því hann hafi verið í sjokki og ekki vitað hvað hann ætti að gera.

Losaði sig við blóðug föt

Hann athugaði ekki hvort hún væri á lífi og sagði að hann hefði ekki tekið eftir neinum eldi í herberginu. Þá neitaði Lane því að hafa kveikt í en viðurkenndi að hafa keypt bensín því hann hefði orðið svo þunglyndur í kjölfarið á andláti afa hans.

Lane sagðist hafa farið heim og ekki sagt neinum í fjölskyldu sinni frá Grice því hann vildi ekki að sér yrði kennt um dauða hennar. Hann fór svo í sturtu og lét athuga með lottómiða í sjoppunni en tók þá eftir blóði í buxunum sínum.

Lane heyrði svo sírenuvæl og losaði sig því við buxurnar og bolinn. Hann fór svo til tannlæknis og í vinnuna áður en hann var handtekinn. Við réttarhöldin viðurkenndi Lane að hafa nokkrum sinnum logið að lögreglunni við rannsókn málsins.

Lesa má nánar um málið á vef BBC, Guardian og Independent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×