Viðskipti innlent

Tekjur Tempo námu 1.400 milljónum og jukust um 41 prósent milli ára

Hörður Ægisson skrifar
Ágúst Einarsson, framkvæmdastjóri Tempo, segir rekstur þessa árs fara "vel af stað og ljóst að það stefnir í enn eitt frábært rekstrarár.”
Ágúst Einarsson, framkvæmdastjóri Tempo, segir rekstur þessa árs fara "vel af stað og ljóst að það stefnir í enn eitt frábært rekstrarár.”

Heildartekjur hugbúnaðarfyrirtækisins Tempo, dótturfélags Nýherja, námu samtals um 13 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði um 1.400 milljóna króna, í fyrra og jukust um 41 prósent á milli ára. Meginhluti tekna fyrirtækisins kom vegna starfsemi þess erlendis en Bandaríkin er stærsti markaður Tempo, auk Bretlands og Þýskalands.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Tempo en þar er haft eftir Ágústi Einarssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, að árið 2016 hafi reynst viðburðarríkt.

„Umsvifin jukust verulega og hið sama gerðu tekjurnar. Á þessu ári munum við svo kynna fjölmargar nýjungar sem munu auka virði lausna Tempo til muna fyrir viðskiptavini okkar. Við höfum verið að þróa samþættingu kerfa og gera þau enn notendavænni. Þannig auðveldum við viðskiptavinum okkar enn frekar að safna gögnum, vinna úr þeim og taka mikilvægar ákvarðanir í rekstri. Rekstur ársins 2017 fer vel af stað og ljóst að það stefnir í enn eitt frábært rekstrarár,” segir Ágúst.

Á árinu 2016 bættust ríflega 2.800 viðskiptavinir við hjá Tempo og starfsfólki fyrirtækisins í Norður Ameríku heldur áfram að fjölga jafnt og þétt í takt við aukin umsvif. Þá segir í tilkynningu félagsins að meðal nýrra viðskiptavina Tempo séu fyrirtæki á borð við Mercedes Benz, Starbucks, Porsche og Estee Lauder. 

Nýherji kannar sölu á meirihluta í Tempo
Ívar Kristjánsson, stjórnarformaður Nýherja, sagði í ræðu sinni á nýafstöðnum aðalfundi að Nýherji gæti gengið frá sölu á meirihluta í Tempo til erlendra fjárfesta síðar á árinu. 

„Við sjáum það fyrir okkur að niðurstaða slíks ferlis geti mögulega falið í sér sölu á meirihluta hlutafjár Tempo en þó með áframhaldandi aðkomu Nýherja sem eiganda,“ sagði Ívar. Stjórnarformaðurinn sagði vinnu að undirbúningi söluferlisins miða ágætlega, en það er í höndum fjárfestingarbankans AGC Partners í Boston, og að dregið geti til tíðinda á árinu. Ekki væri hægt að segja hvenær söluferli geti hafist.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*