Fótbolti

EM-ævintýri hjá Færeyingum í fótboltanum | Þvílík gleði í þessu myndbandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hetjurnar.
Hetjurnar. Mynd/FSF

Færeyingar eru komnir á EM í fótbolta í fyrsta sinn en sautján ára landsliðið tryggði sér í dag sæti í úrslitum EM U17 landsliða.

Færeyska landsliðið vann 2-1 sigur á Slóvakíu í lokaleik sínum í milliriðlinum en þetta var hreinn úrslitaleikur um hvor þjóðin kæmist í úrslitakeppnina.

Tórur Jacobsen og Hanus Sörensen skoruðu mörk liðsins í fyrri hálfleiknum en Slóvakar náðu að minnka muninn í seinni hálfleik.

Írland vann riðilinn en Írar unnu 4-0 sigur á Færeyjum í fyrsta leik sínum. Írar voru með fullt hús og fengu ekki á sig mark í leikjunum þremur.

Færeyingar komu til baka eftir þetta stóra tap í fyrsta leik, náðu markalausu jafntefli í næsta leik og lönduðu svo sigrinum í dag sem skilaði liðinu inn á EM sem fer fram í Króatíu í maí.

Íslenska landsliðið tapaði öllum sínum þremur leikjum í undankeppninni sem fóru fram í Ísrael í nóvember síðastliðnum.  Færeyingar tryggðu sér á sama tíma sæti í milliriðlinum og fóru síðan alla leið í dag en alls komast sextán lið í úrslitakeppnina.

Það var mikil gleði í herbúðum færeyska liðsins í dag eins og sjá má þessu myndbandi hér fyrir neðan en það er frá fésbókarsíðu færeyska fótboltalandsliðsins. 
Fleiri fréttir

Sjá meira