Körfubolti

Shaq er líka á því að jörðin sé flöt

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Allen Iverson hlýtur að vera næstur að koma með þessa yfirlýsingu en hann er hér með Shaq.
Allen Iverson hlýtur að vera næstur að koma með þessa yfirlýsingu en hann er hér með Shaq. vísir/getty
Það virðist nánast vera komið í tísku hjá þeim sem tengjast NBA-deildinni að halda því fram að jörðin sé ekki kringlótt heldur flöt.

Kyrie Irving, stórstjarna Cleveland, opnaði sig fyrstur með sína skoðun á því að hann teldi jörðina vera flata. Héldu margir í fyrstu að hann væri að grínast en hann hefur ítrekað að þessi skoðun hans sé ekkert grín.

Irving segir að það sé ekkert mál að falsa myndir til þess að fá fólk til að trúa því að jörðin sé kringlótt. Ókei.

Skömmu síðar stigu Wilson Chandler, leikmaður Denver, og Draymond Green, leikmaður Golden State fram, og sögðust vera á sama máli og Irving. Jörðin væri flöt.

Umræðan var orðin svo galin um tíma að yfirmaður NBA-deildarinnar, Adam Silver, varð að taka fram í fréttabréfi deildarinnar að hann trúði því að jörðin værui kringlótt.

Nú hefur NBA-goðsögnin og sjónvarpsmaðurin Shaquille O'Neal stigið fram og sagt að hann telji líka að jörðin sé flöt.

„Það er satt. Jörðin er flöt. Það eru til alls konar leiðir til að rugla í okkur. Það fyrsta sem við lærum í skóla er að Kristófer Kólumbus hafi fundið Ameríku. Þegar hann kom hingað voru samt menn með sítt hár að reykja pípur. Hann sem sagt fann ekki Ameríku,“ sagði Shaq og hélt áfram.

„Ég keyri frá Flórída til Kaliforníu oft á ári og þá leynir sér ekki að jörðin er flöt. Ég fór ekki upp og niður og jörði hallaði aldrei neitt. Ætlið þið að segja mér að Kína sé fyrir neðan okkur? Það er ekki þannig. Jörðin er flöt.“

Þess má geta að Shaq er með háskólagráðu frá Barry-háskólanum í Miami.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×