Innlent

Mikil þörf á nýjum skóla fyrir fötluð börn: „Klettaskóli er fullur og allar sérdeildir eru fullar“

Nadine Guðrún Yaghi skrifar

Mikil þörf er á nýjum sérskóla fyrir fötluð börn. Atferlisfræðingur sem undirbúið hefur stofnun nýs skóla segir allt klárt fyrir opnun hans en að ekkert sveitarfélag hafi lýst sig reiðubúið að hýsa hann.

Hóp­ur fag­fólks og for­eldra fatlaðra barna hefur undiðbúið stofnun nýs grunnskóla, Arnarskóla, fyrir fötluð börn í þó nokkurn tíma. Skólinn verður sjálfseignarstofnun og  mun bjóða uppá heilstæða einstaklingsbundna þjónustu allan daginn, allan ársins hring.

Hann mun starfa eftir hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar og vilja stofnendur skólans að hann verði staðsettur í almennum grunnskóla og með eins miklu samstarfi við þann grunnskóla og mögulegt er.

Stefnt var að því að skólinn myndi opna í haust en enn er ekki ljóst hvar skólinn verður. „Nú höfum við talað við öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og alls staðar hefur verið tekið vel á móti okkur, allir lýsa mikilli þörf á svona skóla. Sums staðar er plássleysi og annars staðar er verið að skoða þetta og við bíðum spennt eftir að fá svör,“ segir Atli Freyr Magnússon, atferlisfræðingur og bætir við að ekki sé hægt að hefja innritun fyrr en skólinn fái jákvætt svar frá einhverju sveitarfélagann.  

„Það er klárlega vöntun á fleiri úrræðum fyrir fötluð börn á Íslandi. Klettaskóli er fullur og allar sérdeildir eru fullar og svo er náttúrulega líka vöntun því þetta er öðruvísi úrræði og öðruvísi uppbyggt en hinir skólarnir,“ segir Atli Freyr.

Sóley Ósk Geirsdóttir segir að það sé brýn þörf á fleiri úrræðum fyrir fötluð börn en hún á fatlaðan dreng.

„Hann er með downs heilkelli og fylgikvilla, til dæmis Adhd og á einhverfurófi. Til dæmis í hans tilfelli þá hentar honum ekki þessi strúktúr sem aðrir grunnskólar eru byggðir á og þar á meðal Klettaskóli sem er þó fyrir fötluð börn,“ segir Sóley Ósk en aðferðafræði skólans myndi henta hennar dreng mjög vel.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira