Innlent

Íslendingar í öðru sæti á lista Bloomberg yfir heilbrigði þjóða

Birgir Olgeirsson skrifar
Þessir íslensku sjómenn geta búist við að verða 91 árs miðað við heilsuvísitölu Bloomberg.
Þessir íslensku sjómenn geta búist við að verða 91 árs miðað við heilsuvísitölu Bloomberg. Vísir/Getty
Ísland er í öðru sæti á lista fjölmiðilsins Bloomberg yfir heilbrigði þjóða. Þar er Ítalía í efsta sæti af 163 þjóðum en barn sem fæðist á Ítalíu getur búist við að ná níræðisaldri samkvæmt heilsuvísitölu Bloomberg

Í úttekt Bloomberg kemur fram að efnahagsvöxtur á Ítalíu hafi staðið í stað í áratugi, tæplega fjörutíu prósent ungmenna eru atvinnulaus og er þjóðin ein sú skuldsettasta í dag miðað við stærð ítalska hagkerfisins. Engu að síður eru Ítalir í mun betra formi en Bandaríkjamenn, Kanadamenn og Bretar, en þær þjóðir þjást af of háum blóðþrýstingi og kólesteróli og búa við verri andlega heilsu. 

Ítalir eru sagðir búa við gott aðgengi að læknum og þá eru þeir sagðir duglegir að borða grænmeti og neyta ólífuolíu. 

Þegar Bloomberg reiknar út heilsuvísitölu sína er meðal annars horft til lífslíkna, dánarorsaka, lifnaðar, tóbaksnotkunar og aðgengis að hreinu vatni. 

Á Ítalíu geta einstaklingar búist við að ná rúmlega 93 ára aldri en á Íslendingar geta búist við að ná rúmlega 91 árs aldri. Sviss, Singapúr og Ástralía eru í sætunum á eftir Íslandi. 

Bandaríkin eru í 34. sæti en þar er í landi er offita stærsta vandamálið að mati Bloomberg. Í úttektinni kemur fram að íbúar í LouisianaMississippi og Vestur Virginíu í Bandaríkjunum séu þeir feitustu, en 35 prósent þeirra eru í ofþyngd. Jafnframt eru íbúar þessara ríkja þeir fátækustu.

Af nágrannaríkjum Íslands eru Svíar næstir Íslendingum á þessum lista, eða í 8. sæti. Geta Svíar búist við að að lifa í tæplega 89 ár samkvæmt þessari heilsuvísitölu Bloomberg. Norðmenn geta búist við því að verða 86 ára gamlir og eru því í 11. sæti, Finnar 84 ára í 15. sæti, en Danir 80 ára í 28. sæti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×