Innlent

CNN segir hamingju Íslendinga felast í vatninu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sundlaugarnar á Íslandi eru þjóðargersemar.
Sundlaugarnar á Íslandi eru þjóðargersemar. Vísir/Stefán

Sundlaugar og heita vatnið á Íslandi er lykillinn að hamingju Íslendinga ef marka má innslag CNN sem tekið var upp hér á landi nýverið.

Rætt er við þjóðfræðinginn Valdimar Hafstein sem rannsakað sundlaugamenningu á Íslandi ásamt fleirum en samkvæmt nýjum lista SDSN, stofnunar á vegum Sameinuðu þjóðanna, er Ísland þriðja hamingjusamasta þjóð í heimi.

„Samkvæmt skilgreiningu Aljóðaheilbrigðisstofnunarinnar snýst heilsa um fleira en það eitt að vera laus við sjúkdóma. Heilsan er fólgin í líkamlegri, andlegri og félagsri vellíðan og út frá því mætti halda því fram að hitaveitan og sundlaugarnar gegni talsverðu hlutverki í heilsu Íslendinga. Sundlaugarnar eiga þátt í vellíðan þeirra sem þangað sækja, sem eru býsna margir,“ segir Valdimar.

Í innslaginu er því haldið fram að besta leiðin til þess að hitta Íslendinga sé einfaldlega að skella sér í sund og að sundlaugarnar hafi í gegnum tíðina brotið niður samfélagslegar hindranir sem verða til í öllum samfélögum. 

„Hérna hittast allir í heita pottinum, það skiptir ekki máli hvort það er kennarinn og nemandinn, kaupsýslumaðurinn eða verkamaðurinn, milljónamæringurinn eða bílasalinn, hérna hittast allir,“ segir Valdimar.

Þá er einnig greint frá þeim óskrifuðu reglum sem gilda varðandi sundferðir hér á landi og mikilvægt er að hlýta hverju sinni. Það má ekki ræða of persónuleg málefni og mikilvægt er að að halda sig við almennt tal um það sem er að gerast í samfélaginu. Þá er má ekki takast í hendur, það er nóg að kinka kolli.

Mikilvægast af öllu er þó að þrífa sig vel og vandlega áður en haldið er til sundlaugarinnar, enda taki Íslendingar ekki vel í það ef einhver sleppir því skrefi.

Innslag CNN má sjá í heild sinni hér.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira