Erlent

Ivanka með skrifstofu í Hvíta húsinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ivanka Trump hefur í gegnum tíðina verið náinn ráðgjafi föðurs síns, Donald Trump.
Ivanka Trump hefur í gegnum tíðina verið náinn ráðgjafi föðurs síns, Donald Trump. Vísir/Getty

Ivanka Trump, dóttir Donald Trump Bandaríkjaforseta, er með skrifstofu í Hvíta húsinu og mun fljótlega fá aðgang að leyniskjölum án þess þó að vera titlaður sem opinber starfsmaður.

Frá þessu er greint á vef Guardian en James Gorelick, lögfræðingur og ráðgjafi Trump í siðamálum staðfestir þetta. Segir hann að fljótlega muni Ivanka fá heimild til þess að fá aðgang að leyniskjölum sem og símtæki frá hinu opinbera í tengslum við vinnu sína.

Gorelick segir að þrátt fyrir að hún muni ekki gegna starfi sem embættismaður muni hún alfarið fara eftir siðareglum sem gilda um störf embættismanna í Hvíta húsinu.

Ivanka hefur í gegnum tíðina verið náinn ráðgjafi föðurs síns og tók til að mynda þátt í fundahöldum með Trump og Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, sem var í opinberri heimsókn í Bandaríkjunum á dögunum.

Þá er eiginmaður Ivönku, Jared Kushner, einn nánasti ráðgjafi Trump. Ivanka lét af störfum hjá Trump Organization fljótlega eftir að faðir hennar tók við embætti forseta og hefur síðan þá verið honum innan handar í störfum hans sem forseti Bandaríkjanna.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira