Gagnrýni

Nýstirni rís

Sigríður Jónsdóttir skrifar
Katrín Halldóra og Björgvin Franz sem Elly og Ragnar Bjarnason.
Katrín Halldóra og Björgvin Franz sem Elly og Ragnar Bjarnason. Mynd/Grímur Bjarnason
Eftirvæntingin var mikil á laugardagskvöldið þegar Borgarleikhúsið, í samstarfi við Vesturport, frumsýndi loksins Elly. Mikil leynd ríkti yfir hver myndi hreppa aðalhlutverkið og beið þeirrar leikkonu mikið verkefni að koma þessari ástsælustu dægurlagasöngkonu þjóðarinnar til skila. En áhorfendur þurfa ekki að kvíða neinu því að þeir eiga eftir að verða vitni að sjaldgæfri og hreint út sagt ógleyman­legri frammistöðu.

Katrín Halldóra Sigurðardóttir er gjörsamlega stórkostleg í hlutverki Ellyjar. Ekki eru nema tæp tvö ár síðan hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands og hefur hún dafnað með hverri sýningu. En í Elly springur hún út og nánast sprengir þakið af Borgaleikhúsinu. Hún heldur ekki eingöngu sýningunni uppi heldur færir hana í nýjar víddir. Hún gerir ekki tilraun til að herma eftir Elly, slíkt væri ógjörningur, heldur túlkar hún þessa mögnuðu og flóknu konu á sinn hátt.



Hlutverkið er einkar krefjandi enda þarf hún að koma heilli fullorðinsævi til skila frá fyrstu söngprufunni til síðustu augnablika ótrúlegs lífs sem endaði alltof snemma. Þetta gerir Katrín Halldóra af miklum þroska, húmor og næmi. Söngur hennar er líka kapítuli út af fyrir sig því hún syngur nefnilega eins og engill. Í lögunum mætast tónlistarleg túlkun Katrínar Halldóru á lögunum og tilfinningalegt ástand Ellyjar í framvindunni á magnaðan hátt.



Henni til halds og trausts eru þeir Björgvin Franz Gíslason og Hjörtur Jóhann Jónsson sem bregða sér í allra kvikinda líki. Stærsta hlutverk Björgvins er að koma Ragnari Bjarnasyni til skila sem hann gerir með ágætum þó að hann detti stundum í gryfju eftirhermunnar. Hjörtur Jóhann sýnir enn og aftur hversu fjölhæfur hann er, eftir­tektar­vert er hvernig hann leikur Svavar Gests meira í gegnum þagnirnar en orðin.

Önnur hlutverk eru í þynnri kantinum en Björn Stefánsson og Katla Margrét Þorgeirsdóttir skila þeim þokkalega. Auðvitað væri engin Elly án hljómsveitar og aðstandendur sýningarinnar taka upp á því þjóðráði að hafa hana á sviði nær allan tímann. Meðlimir sveitarinnar taka líka stundum beinan þátt í sýningunni og á Sigurður Guðmundsson heiðurinn af besta fimmaurabrandara ársins.

Ævisaga Ellyjar eftir Margréti Blöndal var höfð til hliðsjónar við vinnslu handritsins sem Ólafur Egill og Gísli Örn vinna í sameiningu. Hér er ansi hratt farið yfir sögu en öll ævi Ellyjar liggur hér til grundvallar. Höfundar bregða á það bráðsniðuga ráð að þræða þekktustu lög Ellyjar í gegnum sýninguna og gefa þeim nýja dýpt með því að tengja þau við atburði í lífi hennar. Handritið er samt örlítið klunnalegt á köflum.

Yfirhöfuð vinnur Gísli Örn gott leikstjórnarverk þar sem Elly sjálf er ávallt miðpunkturinn. Feilspor má þó finna í sýningunni, kannski fleiri en þægilegt þykir, svo sem innkomu spænska sölumannsins og apans Bongó. Leikmyndahönnuðurinn Börkur Jónsson umbreytir Nýja sviðinu í gamaldags næturklúbb á eftirminnilegan hátt. Kannski er ráð að endurhugsa númeralausu sætin en leikhúsgestum er ráðlagt að mæta snemma.

Búningahönnun Stefaníu Adolfsdóttur er bæði metnaðarfull og einstaklega vel heppnuð. Hvert smáatriði smellpassar og ballkjól­arnir eru hver öðrum fallegri. Nauðsynlegt er líka að hrósa leikgervum Árdísar Bjarnþórsdóttur og þá sérstaklega hárgreiðslum Ellyjar en þær leiða okkur í gegnum hluta af sögu landsins. Hljóðvinnsla Garðars Borgþórssonar er einnig virkilega vel framkvæmd og mikilvægur þáttur í sýningunni.



Elly er meira eins og skemmtidagskrá með dramatískum undirtónum og frábærri tónlist en heildræn leiksýning. Það er kannski akkúrat ákjósanlegasta leiðin til þess að koma sögu þessarar einstöku konu til skila. En Katrín Halldóra stelur senunni, færir sýninguna yfir á annað plan og sýnir frammistöðu sem enginn má missa af.

Niðurstaða: Katrín Halldóra Sigurðardóttir vinnur leiksigur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×