Fastir pennar

Blessuð sé bölvuð íslenska krónan

Þórlindur Kjartansson skrifar
Það er ekki langt síðan íslenska krónan var svo lítil og aum að Íslendingar í útlöndum voru sárafátækir og gátu ekki einu sinni keypt allt sem þeir vildu í H&M. Bölvuð krónan.

En svo stækkaði krónan og varð svo svakalega sterk að Íslendingar urðu forríkir í útlöndum. Þeir borða á fínum veitingahúsum og kaupa hágæða merkjavöru og hlæja sig hása af verðlaginu. Blessuð krónan.

Fyrir stuttu síðan gátu íslensk fyrirtæki selt vörur sínar og þjónustu í útlöndum á spottprís. Launin voru svo hlægilega lág á Íslandi að það var ekkert mál að selja hágæðavörur á miklu lægra verði heldur en aðrar þjóðir gátu látið sér detta í hug að bjóða. Útflutningurinn blómstraði og útlendingar komu til Íslands og gátu leyft sér að kaupa sér allan þann bjór sem þá lysti og nokkur eintök af allra stærstu tuskulundum sem farangursheimildin leyfði. Blessuð krónan.

En nú eiga útflutningsfyrirtæki ekki roð í að bjóða samkeppnishæft verð fyrir vörur sína og þjónustu. Og útlendingarnir, sem áður gengu skælbrosandi og síkaupandi um göturnar, sjást nú kjökrandi við afgreiðsluborðin og tárfella ofan í Lundaeggin sín og drekka ekki rándýran bjórinn heldur bara vatn úr krana; meira að segja á Hótel Adam. Bölvuð krónan

Hvað gerðist?

Fyrir þá, sem ekki hafa alist upp við veruleika íslensku krónunnar virðist þetta ótrúlegt. „Hvað gerðist eiginlega?“ myndu margir spyrja. Fyrir okkur Íslendinga er svarið ósköp einfalt: „Bara það sama og venjulega.“

Í umræðum um kosti og galla krónunnar heyrast oft raddir sem halda því fram að „krónan sé bara mælikvarði á hagkerfið“ og svo segja jafnvel sömu raddir að krónan sé mikilvægt hagstjórnartæki. Hún er sem sagt bæði hitamælir og hitastillir. Hún segir okkur hvernig staðan er og hún breytir stöðunni.

Og sveiflurnar eru sagðar hjálpa okkur til að aðlagast síbreytilegum aðstæðum og á sama tíma er hagkerfið sjálft í stöðugu kapphlaupi við að laga sig að dyntum krónunnar.

Krónan er sögð hafa bjargað okkur frá stærri skelli í bankahruninu, þótt augljóst megi telja að það var einmitt krónan sjálf sem gerði hina óraunhæfu útþenslu bankakerfisins og hagkerfisins mögulega. Blessuð bölvuð krónan.

Sveiflukennt gengi niður á við

Sveiflurnar í krónunni gera umhverfi íslenskra fyrirtækja flóknara en víðast annars staðar. Í þessu felst ákveðinn kostnaður sem fellur á okkur öll, sem eins konar krónuskattur. Þar að auki hefur rekstur myntarinnar okkar oftast nær krafist þess að vaxtastigið hér sé þó nokkuð hærra en á stærri og stöðugri myntsvæðum og það er líka krónuskattur.

Það er svo sem ekki skrýtið að fólk sem á krónur vilji háa vexti því þrátt fyrir allar sínar sveiflur þá liggur þróun á verðmæti krónunnar bara niður á við þegar litið er til lengri tíma. Ef einhver finnur í dag 100 dollara seðil sem gleymdist í vasa þann 24. mars 2007—síðast þegar krónan þótti gríðarlega sterk—þá hafa þessir dollarar ávaxtast um 5% á ári; því þótt krónan þyki óskaplega sterk núna þá er hún samt 40% veikari gagnvart Bandaríkjadal en hún var þá.

Peningastjórnunin er ekki vandamálið

Hin langa þrautaganga krónunnar hefur vitaskuld oft orðið tilefni fyrir pólitíska umræðu á Íslandi. Nú er meira að segja í ríkisstjórn flokkur sem safnaði atkvæðum á þeirri forsendu að gera ætti grundvallarbreytingar á gjaldmiðlamálum. En þessari pólitísku umræðu lýkur alltaf á sömu leið. Stjórnmálamenn og embættismenn viðurkenna vandann og lofa að standa sig betur næst. Afsakið. Ég efast.

Íslenskir stjórnmálamenn og embættismenn hafa auðvitað ekki haft það að markmiði að myntin okkar sé sveiflótt. Og íslenskir hagfræðingar eru örugglega ekki verri eða vitlausari en aðrir hagfræðingar. Það er meira að segja ekki ólíklegt að þeir séu ívið betri og klárari—rétt eins og bílstjórar sem keyra í hálku verða flinkari en þeir sem alltaf keyra á þurru malbiki.

En þótt það sé gott að kunna að keyra í hálku þá er miklu öruggara að vera laus við hana. Sama má segja um sveiflur krónunnar. Á meðan við þráumst við að reka sjálfstæða mynt í alþjóðlegu umhverfi þá erum við á hálum ís.

Vandinn er ekki að það þurfi að stjórna myntinni betur, vandinn er að hugmyndin sjálf er óraunhæf—rétt eins og vandi þess sem ætlar að róa á árabót í Smuguna er ekki að hann rói ekki nægilega hraustlega. Hann þarf einfaldlega stærri bát.

Nú skal það hafast

Nýlega var skipuð nefnd til þess að meta kosti Íslands í gjaldeyrismálum. Samkvæmt tilkynningu frá forsætisráðuneytinu tengist nefndarskipunin því markmiði ríkisstjórnarinnar að „draga úr þeim miklu sveiflum sem verið hafa á gengi krónunnar“. Nefndin mun því að líkindum skila niðurstöðu sem byggist á áframhaldandi notkun hins séríslenska gjaldmiðils; en þó með þeirri breytingu að nú standi til að stjórna henni miklu betur en gert hefur verið í tæplega hundrað ára sögu myntarinnar.

Afsakið aftur. Ég efast.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu






×