Fastir pennar
Sif Sigmarsdóttir.

Blind trú

Sif Sigmarsdóttir skrifar

Árið 1992 lýsti bandaríski stjórnmálafræðingurinn Francis Fukuyama yfir „endalokum sögunnar“. Fukuyama trúði því að hugmyndafræðilegri þróun mannkynsins væri lokið. Við fall Sovétríkjanna og lok kalda stríðsins var endapunktinum náð. Hið eina rétta stjórnarfar, hið vestræna lýðræði, hafði í anda náttúruvals Darwins orðið ofan á og bolað burt óæðri stjórnarháttum, svo sem harðstjórn, einræði og kommúnisma.

Fáum okkur te
„Í gær var reynt, með hryðjuverki, að þagga niður í lýðræðinu,“ sagði Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, er hún ávarpaði breska þingið daginn eftir hryðjuverkaárásina við þinghúsið í vikunni. „En í dag komum við hér saman eins og aðra daga – eins og kynslóðirnar á undan okkur gerðu og eins og komandi kynslóðir munu gera – til að segja: Við látum ekki hræðast … Því við vitum að lýðræðið og þau gildi sem því fylgja munu alltaf verða ofan á.“

Sem Lundúnabúi get ég vottað staðfestu samborgara minna. Lífið gengur sinn vanagang og fólk sendir ódæðismönnunum fingurinn. „Allir hryðjuverkamenn eru vinsamlegast minntir á að þetta er London,“ stendur nú á skilti í einni neðanjarðarlestastöðinni: „Sama upp á hverju þið takið munum við einfaldlega fá okkur te og halda okkar striki. Bestu þakkir.“ Ekkert fær haggað lýðræðinu. Eða hvað?

Tíu árum eftir að Fukuyama skrifaði metsölubók um hamingjurík endalok sögunnar leit önnur metsölubók dagsins ljós. Árið 2002 urðu hugleiðingar tvídjakkaklædds stjórnmálafræðings sem hélt því fram að mannkynið væri „vopnaframleiðandi dýr haldið óþrjótandi drápsþorsta“ óvæntur sumarsmellur í Bretlandi. Í bókinni Straw Dogs: Thoughts on Humans and Other Animals færir John Gray rök fyrir því að framþróun mannkynsins sé aðeins goðsögn. Þótt framþróun sé staðreynd þegar kemur að tækni og vísindum – skref fyrir skref bætist við ný þekking og gamlar kenningar glatast sem reyndust rangar – er það ekki svo þegar um er að ræða mannlegt samfélag, siðferði og stjórnmál. Þar hverfist þróun mannsins í hringi. Það sem þykir siðferðilega rangt einn daginn getur þótt í fínu lagi þann næsta. Sem dæmi er ekki langt síðan pyntingar þóttu glópska fortíðar. En nú tíðkast þær aftur hjá rótgrónum lýðræðisríkjum.

Einlægur ákafi
Nokkrum dögum eftir að hryðjuverkamaður réðst að lýðræðinu í London trúum við því flest sem hér búum að fátt fái stjórnarfarinu haggað. Því lýðræðið „og þau gildi sem því fylgja,“ eins og May orðaði það, „munu alltaf verða ofan á.“ Lýðræðið er hið eina rétta ástand. Það eru sögulok.
En einmitt í þessari blindu trú liggur hættan.

Sagan sjálf sýnir að sögulok eru hvergi nærri. Fáir halda því til að mynda lengur fram að vestrænt lýðræði hafi verið næsta skref í þróun stjórnarhátta í Rússlandi við fall kommúnismans. Og það er með stuðningi fjöldans, leikreglum lýðræðisins, sem Erdogan, forseti Tyrklands, reynir nú að veita lýðræði þar í landi náðarhögg. Lýðræðislega kjörinn forseti Bandaríkjanna er manna duglegastur við að grafa undan frjálslyndum gildum Vesturlanda. Og svo mætti lengi telja.

Bandaríski blaðamaðurinn William Shirer varð frægur fyrir fréttaflutning sinn frá Þýskalandi á fjórða áratug síðustu aldar. Uppgangi nasismans lýsti hann svo: „Flestum Þjóðverjum, að mér virtist, stóð á sama þótt þeir væru smám saman sviptir frelsinu, þótt mikilfenglegri menningu þeirra væri tortímt og í staðinn kæmi barbarismi. ... Þvert á móti virtust þeir styðja það af einlægum ákafa.“

Á eigin ábyrgð
London, Brussel, Berlín, París, Nice. Um alla Evrópu ógna misindismenn lífi og limum saklausra borgara. Það er hræðilegt. Ömurlegt. En mesta ógn við lýðræðið við upphaf 21. aldar eru hins vegar ekki slíkir hrottar. Við stöndum þá af okkur. Helsta ógnin við lýðræðið í dag – og alla daga – er blind trú á goðsögnina um framþróun mannsins. Því lýðræði er hvorki náttúrulegt né óhjákvæmilegt ástand. Lýðræði er ekki örlög okkur sköpuð. Það er hvorki annarra náðarsamlegast að gefa okkur né annarra að taka. Það býr með okkur sjálfum og er á okkar eigin ábyrgð. Gleymum því ekki.
 
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira