Körfubolti

Kristófer: Vildi gefa fólkinu eitthvað til að japla á

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Kristófer hrærði í mönnum á Twitter í gær
Kristófer hrærði í mönnum á Twitter í gær vísir/getty
Kristófer Acox, leikmaður Furman í bandaríska háskólakörfuboltanum, vakti marga til lífsins með tísti í gær sem virtist gefa til kynna að hann myndi snúa heim og taka þátt í úrslitakeppni Dominos-deildar karla með uppeldisfélagi sínu, KR.

Orðrómur hefur verið um að landsliðsmaðurinn myndi snúa aftur að tímabilinu loknu með Furman-háskólanum en hann er á lokaári sínu í skólanum.

Líkt og Vísir fjallaði um átti hann stóran þátt í sigri Furman á Campbell Fighting Camels í gær en með sigrinum komst Furman í undanúrslit College Insider Tournament.

Var Kristófer stigahæstur í sigrinum á Campbell í gær með tvöfalda tvennu, 24 stig og tíu fráköst en hann hitti úr ellefu af tólf skotum sínum í leiknum.





Ljóst er að það yrði gríðarlegur liðsstyrkur fyrir KR að fá Kristófer í raðir sínar en hann lék síðast með liðinu árið 2013 en hann sagðist hafa tekið eftir umræðunni og haft gaman af er Vísir heyrði í honum.

„Ég er búinn að sjá mikið tal um þetta á samfélagsmiðlunum undanfarna daga og mismunandi skoðanir svo ég ákvað að gefa þeim eitthvað til að japla á. Við komumst áfram í undanúrslitin og eigum leik á miðvikudaginn og hvað kemur eftir það er óvíst,“ sagði Kristófer sem sagði að það yrði þó skemmtilegt að taka lokabaráttuna með uppeldisfélaginu.

„Ég get náttúrulega ekki spilað á Íslandi á meðan ég er ennþá leikmaður Furman svo við verðum að sjá til í bili.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×