Erlent

Skipaði blaðamanni að hætta að hrista höfuðið

Kjartan Kjartansson skrifar
Sean Spicer þrætti fyrir að Hvíta húsið glímdi við Rússavanda á blaðamannafundi í dag.
Sean Spicer þrætti fyrir að Hvíta húsið glímdi við Rússavanda á blaðamannafundi í dag. Vísir/EPA
Blaðafulltrúi Hvíta hússins virtist missa stjórn á sér þegar blaðamaður gekk á hann með spurningum um Donald Trump Bandaríkjaforseta og Rússland. Þrætti hann fyrir að Hvíta húsið glímdi við rússneskt vandamál og skipaði blaðamanninum að hætta að hrista höfuðið yfir svörum sínum.

Bandaríska alríkislögreglan (FBI) og leyniþjónustunefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings rannsaka nú möguleg tengsl Trump og samstarfsmanna hans við rússneska embættismenn. Þrátt fyrir það brást Sean Spicer, blaðafulltrúi Hvíta hússins, illur við spurningum um málið á blaðamannafundi í dag.

April Ryan, blaðakona frá American Urban Radio Networks, spurði Spicer út í vandamál Hvíta hússins vegna meintra tengsla við Rússland en Spicer vildi ekki fallast á að það glímdi við neitt slíkt vandamál.

„Nei, við höfum það ekki,“ sagði Spicer sem sakaði Ryan um að láta stjórnast af eigin viðhorfum og lagði til að hún segði frekar frá staðreyndum. Hafði hann einnig orð á því að Ryan hristi höfuðið yfir svörum hans.

„Vinsamlegast hristu ekki höfuðið aftur,“ sagði Spicer við Ryan. Washington Post segir að margir blaðamenn sem voru viðstaddir hafi gert athugasemd við framferði Spicer á samfélagsmiðlum sem þeir túlkuðu sem niðrandi í garð Ryan.

Spicer var hins vegar ekki hættur að gera lítið úr tengingum Trump og félaga við Rússland.

„Ef forsetinn setur rússneska dressingu á salatið sitt í kvöld þá verður það einhvern veginn tengsl við Rússland,“ fullyrti Spicer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×