Fótbolti

Hörður Björgvin: Ætlaði fyrst að setja boltann í markmannshornið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hörður Björgvin Magnússon var að vonum alsæll eftir að hafa tryggt Íslandi fyrsta sigurinn á Írlandi með sínu fyrsta landsliðsmarki. Hann skoraði þá með fallegu skoti beint úr aukaspyrnu.

„Það var mikill léttir að ná sínu fyrsta marki fyrir landsliðið. Ég vil hrósa liðsheildinni, þetta sýnir hversu sterkir við erum. Við missum sterka leikmenn en það komu aðrir sterkir menn inn. Spilamennskan var mjög góð,“ sagði Hörður Björgvin í samtali við Vísi í kvöld.

Hann segist að hafa fengið það hlutverk að taka aukaspyrnurnar í leiknum í kvöld.

„Það var ákveðið fyrir leik. Þeir vita að ég get alveg tekið aukaspyrnur og hef tekið fyrir mitt félagslið. Það var gott að sýna að ég er sá sem er á hælunum á Gylfa að taka þessar aukaspyrnur. Það var gaman að skora,“ sagði Hörður Björgvin sem sneri boltann skemmtilega yfir varnarvegg Íranna.

„Ég var mjög heppinn. Spyrnan hefði ekki mátt vera lægri, þá hefði boltinn örugglega farið í öxlina á einhverjum í veggnum. Ég hitti á milli hausanna á þeim. Veggurinn var ekkert rosalega vel upp stilltur. Ég ætlaði að skjóta í markmannshornið en svo sá ég hvernig þeir stilltu upp veggnum og ákvað að setja boltann yfir hann.“

Hörður Björgvin kvaðst ánægður með varnarleik Íslendinga sem réði vel við allar sóknaraðgerðir Íranna.

„Þeir lágu vel á okkur í seinni hálfleik og við vissum að þeir myndu koma dýrvitlausir inn í hann. Við náðum að drepa tempóið hjá þeim. Okkar verkefni var að stoppa fyrirgjafirnar og þeirra skyndisóknir. Mér fannst þeir ekki fá mörg færi. Varnarleikurinn var mjög sterkur,“ sagði Hörður Björgvin að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×