Handbolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Fram - ÍBV 26-22 | Fram heldur toppsætinu

Anton Ingi Leifsson í Framhúsinu skrifar
Steinunn Björnsdóttir spilaði mjög vel í dag.
Steinunn Björnsdóttir spilaði mjög vel í dag. vísir/andri marinó

Fram heldur toppsætinu í Olís-deild kvenna eftir nokkuð öruggan sigur á ÍBV í Safamýrinni í dag, 26-22. Fram leiddi með fimm mörkum í hálfleik 14-9 og þær unnu að lokum, þrátt fyrir smá bras, í síðari hálfleik.

Andri Marinó Karlsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í Framhúsinu í dag og tók meðfylgjandi myndir.

Fram spilaði vel á köflum í leiknum, en oft á tíðum voru þær afar mistök sem og gestirnir frá Eyjum. Leikurinn var ekki rismikill og gæðin oft verið meiri í leikjum þessara liða, en Fram heldur toppsætinu.

Liðin skiptust á að skora í upphafi leiks og staðan var 3-2 eftir fimm mínútur, en þá gaf Fram-liðið í og komst í 8-3. Ef allt hefði verið eðlilegt hefðu þær stungið af þá, en þær gerðu aragrúa af mistökum sem jafn reynslumikið lið og Fram á ekki að gera.

Þær hleyptu ÍBV inn í leikinn, en þegar Fram var að rétta ÍBV litla putta þá ætluðu þær að taka alla höndina og mistókst. Fyrri hálfleikur var ekki gæðamikill, en bæði lið gerðu svo mikið af auðveldum mistökum til að mynda skref, köstuðu boltanum útaf og fleira í dúr sem jafn gæðamikil lið og þau eiga ekki að gera.

Fram leiddi svo í hálfleik með fimm mörkum, 14-9, en munurinn hefði auðveldlega getað orðið meiri miðað við öll mistökin sem heimastúlkur gerðu í fyrri hálfleik. Aftur á móti hefði munurinn einnig getað orðið eitthvað minni ef ÍBV hefði verið örlítið skynsamara á köflum.

Í síðari hálfleik hélt barningurinn áfram, en Eyjastúlkur komu gífarlega öflugar út í síðari hálfleikinn. Þær breyttu stöðunni úr 16-10 í 16-14 og spennan mikil. Þá sögðu Fram-stúlkur hingað og ekki lengra. Þær skoruðu næstu fjögur mörk og eftir það var ekki aftur snúið.

Heimastúlkur hertu varnarleikinn, Guðrún Ósk Maríasdóttir var frábær í markinu og eftir það komu auðveld mörk úr hraðaupphlaupum sem hjálpuðu Fram að ná góðri forystu.

Ungt og efnilegt lið ÍBV stóð þó í toppliðinu allt til enda, en það vantaði þennan svokallaða herslumun til að jafna metin. Góð frammistaða samt sem áður hjá ÍBV, en þær voru einungis með níu útileikmenn á skýrslu í dag.

Leikurinn í dag fer þó ekki í neinar sögubækur fyrir góðan handbolta. Bæði lið gerðu sig sek um mikið af byrjendarmistökum og það er eitthvað sem þjálfararnir horfa líklega til eftir þennan leik.

Toppliðið sigldi mikilvægum sigri í hús, en þær hafa svo oft spilað betur en þær gerðu í dag. Lokatölur urðu fjögurra marka sigur Fram, 26-22, sem situr eitt á toppi deildarinnar, á undan Stjörnunni sem fylgir þeim þó fast á eftir.

Ragnheiður Júlíusdóttir var markahæst í liði Fram með níu mörk, en næst kom Steinunn Björnsdóttir með sjö mörk. Guðrún Ósk varði vel í markinu, en hún endaði með 46% markvörslu.

Greta Kavaliuskaite bar af í liði ÍBV, en hún skoraði sjö mörk. Næstar komu þær Ester Óskarsóttir og Ásta Björt Júlíusdóttir með fjögur mörk hvor, en Ásta Björt kom bara inn á til þess að taka vítin.

Sigurbjörg átti fínan leik. vísir/andri marinó

Sigurbjörg: Alltof mikið um mistök
„Þetta var full kaflaskipt. Það var alltof mikið um mistök í þessum leik,” sagði Sigurbjörg Jóhannsdóttir, einn af lykilmönnunum í liði Fram, en hún átti fínan leik á miðjunni í dag.

„Við vorum full mikið að drífa okkur á köflum í staðinn fyrir að breikka bilið nægilega mikið svo við værum með öruggt forskot. Í staðinn þá hleyptum við þessu alltaf í leik og það var óþægilega mikil spenna í þessu.”

Sigurbjörg segir að Fram hefði getað gert betur á köflum, en segir að það megi ekki vanmeta Eyjastelpur.

„Algjörlega. Málið er líka að ÍBV er með sterkt lið og gefa ekkert eftir. Leið og við slökuðum þá voru þær bara mættar í leikinn.”

„Þær náðu að snúa þessu við á nokkrum mínútum eftir heimskuleg mistök hjá okkur, en þetta kennir okkur líka að vera á tánum. Leikurinn er 60. mínútur.”

Það sem skiptir öllu máli var sigurinn og Sigurbjörg er sammála blaðamanni að það hafi verið það sem skipti máli eftir allt saman í dag.

„Stigin eru okkar og það er það sem skiptir máli. Við eigum fjóra leiki eftir og þetta var fyrsti sigurinn í höfn af þeim leikjum sem við eigum eftir,” sagði Sigurbjörg í samtali við Vísi að lokum.

Hrafnhildur var ekki sátt með frammistöðu ÍBV. vísir/andri marinó

Hrafnhildur: Byrjendamistök
„Mér fannst þetta aldrei fara í alvöru spennu. Það eru fáránlega mikið af mistökum af okkar hálfu sem gjörsamlega fara með okkur í dag,” sagði Hrafnhildur Skúladóttir, þjálfari ÍBV, ósátt í samtali við Vísi í leikslok.

„Þetta var hræðilegt. Það var rosa erfitt að horfa upp á öll þessi mistök af bekknum, en auðvitað er þetta bara verst fyrir leikmennina sjálfa. Það er ekki gaman að gera þessi mistök, en mér fannst það fara með leikinn.”

„Við börðumst í vörninni allan tímann og það var ekkert mikið út á það að setja, það er að segja baráttuna, en þetta voru líka svo vondir teknískir feilar, svokölluð byrjendamistök, sem er sérstaklega dýrt gegn svona sterku liði eins og Fram er sem refsar þér.”

„Gegn svona liði eins og Fram er, sem keyrir bara á fullu og spilar mjög hratt og eru fljótar upp, þá eru þær mjög fljótar að refsa þér,” sagði Hrafnhildur, sem segir að einn af sínum leikmönnum hafi verið veik svo þær voru bara ellefu á skýrslu í dag:

„Það eru bara ein veikindi, en yfirleitt erum við bara tólf. Ég er ekkert mikið yfir hópnum að kvarta. Við erum bara einfaldlega ekki með meiri hóp,” sagði Hrafnhildur að lokum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira