Körfubolti

Sú stigahæsta rekin vegna samskiptaörðugleika

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tyson-Thomas leikur ekki fleiri leiki með Njarðvík.
Tyson-Thomas leikur ekki fleiri leiki með Njarðvík. vísir/stefán

Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur hefur sagt upp samningi sínum við Carmen Tyson-Thomas.

Samskiptaörðugleikar eru ástæða uppsagnar Tyson-Thomas, eins og segir í frétt á heimasíðu Njarðvíkur.

„Ástæða uppsagnarinnar eru samskiptaörðugleikar án þess að tíunda hvað í þeim felst. Við það ástand var ekki unað og því mat körfuknattleiksdeildar UMFN að enda samstarfið,“ segir í fréttinni.

Tyson-Thomas hefur verið langbesti leikmaður Njarðvíkur í vetur og líklega besti leikmaður Domino's deildar kvenna.

Tyson-Thomas er langstigahæst í deildinni, með 36,7 stig að meðaltali í leik. Hún er með næstflest fráköst (16,5) og hæst í framlagi (40,1).

Tyson-Thomas lék níu leiki með Njarðvík í 1. deildinni í fyrra. Tímabilið þar á undan lék hún með Keflavík í Domino's deildinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira