Viðskipti erlent

Framleiðslugalli í Pixel veldur hljóðnemabilun

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Google Pixel.
Google Pixel. Nordicphotos/AFP

Google Pixel, nýr snjallsími tæknirisans Google, þjáist af framleiðslugalla sem getur valdið bilunum í hljóðnemum hans. Fjölmargir eigendur hafa kvartað yfir vandamálum sem tengjast hljóðnemum símans undanfarna daga á spjallborði fyrirtækisins. Gallinn finnst einnig í stærri útgáfu símans, Pixel XL.

Bilanirnar eru fjölbreyttar. Í sumum tilfellum nema hljóðnemarnir of lítið hljóð og í öðrum tilfellum virka þeir bara alls ekki. Í samtali við fréttasíðuna Android Police staðfesti starfsmaður Google að um framleiðslugalla væri að ræða. Þó næði vandamálið einungis til um eins prósents allra Pixel-síma sem framleiddir voru fyrir janúar 2017.

Google mælir með því að eigendur Pixel-síma sem hrjáðir eru af umræddum galla skili símunum, séu þeir í ábyrgð, og fái nýja í staðinn.

Fréttin birtist fyrst í FréttablaðinuFleiri fréttir

Sjá meira