Viðskipti erlent

Segir hvíta karlmenn „í útrýmingarhættu“ í stjórnum breskra fyrirtækja

John Allan, stjórnarformaður TESCO.
John Allan, stjórnarformaður TESCO. Skjáskot/TESCO

John Allan, stjórnarformanns bresku verslunarkeðjunnar Tesco, segir að hvítir karlmenn séu í „útrýmingarhættu“ í yfirmannsstöðum og stjórnum fyrirtækja og hafi þurft að víkja fyrir konum og fólki af öðrum kynþáttum.

Ummælin féllu á ráðstefnu verslunarfólks í Bretlandi á fimmtudag og sagði hann að hlutirnir væru að breytast mjög hratt þó að hvítir karlmenn séu enn í meirihluta í stjórnunarstöðum.

„Í þúsundir ára hafa karlmenn fengið flestar stöður, en nú eru hlutirnir að breytast í hina áttina og munu halda áfram að breytast að ég held,“ sagði Allan í ræðu sinni á ráðstefnunni á fimmtudag.

„En ef þú ert hvítur karlmaður ertu í útrýmingarhættu og munt þurfa að hafa tvöfalt meira fyrir hlutunum.“

Þess má geta að í stjórn Tesco sitja, ásamt Allan, átta hvítir karlmenn og þrjár hvítar konur.

Ummæli Allan hafa farið misvel ofan í fólk í Bretlandi og hefur Sophie Walker, leiðtogi kvennaflokksins þar í landi, kallað eftir því að fólk sniðgangi verslanir Tesco.

Í yfirlýsingu Allan sem birtist á vefsíðu Tesco í dag sagði Allan að hann hafi viljað segja að nú væri góður tími fyrir konur að sækjast eftir stjórnunarstöðum og harmaði ef ummæli hans voru túlkuð á annan hátt.Fleiri fréttir

Sjá meira