Handbolti

Höfum ekki breytt neinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Laufey Ásta skoraði fimm mörk gegn Haukum.
Laufey Ásta skoraði fimm mörk gegn Haukum. vísir/anton

Eftir brösótt gengi fyrir áramót hafa Íslandsmeistarar Gróttu sýnt tennurnar á undanförnum vikum.

Gróttukonur hafa unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum og eru í 5. sæti Olís-deildar kvenna með 17 stig, jafn mörg og ÍBV sem situr í 4. sætinu. Fjögur efstu lið deildarinnar komast í úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn.

„Það er erfitt að segja en ætli það hafi ekki verið sterk vörn og hraðaupphlaupin sem við fengum,“ sagði Laufey Ásta Guðmundsdóttir, fyrirliði Gróttu, aðspurð hvað hafi skilað sigrinum á Haukum á laugardaginn var.

Þrátt fyrir að Gróttu hafi gengið mun betur eftir áramót en fyrir á Laufey Ásta erfitt með að setja fingurinn á hvað hafi breyst til batnaðar hjá liðinu.

„Ég hef ekki hugmynd. Við gerum ekkert öðruvísi og höfum þannig séð ekki breytt neinu. Það er ekkert eitt,“ sagði Laufey Ásta sem hrósaði markverðinum unga, Selmu Þóru Jóhannsdóttur, sem hefur spilað vel í undanförnum leikjum.

„Selma hefur staðið sig rosalega vel og nær saman við vörnina. Það er alveg magnað hversu vel hún hefur komið sér inn í þetta,“ sagði Laufey um markvörðinn efnilega.

Aðeins þrjár umferðir eru eftir af deildarkeppninni en í þeim mætir Grótta m.a. botnliðunum tveimur, Selfossi og Fylki. Laufey Ásta segir að það sé ekkert endilega gott fyrir Gróttu.

„Við höfum bæði tapað og gert jafntefli við Fylki og duttum út úr bikarnum fyrir Selfossi. Mér finnst stigafjöldi þeirra ekki segja alla söguna,“ sagði Laufey Ásta að lokum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira