Innlent

„Einhverjir eru að fara að fá góða bónusa þökk sé ríkisstjórn Íslands“

Birgir Olgeirsson skrifar
„Einhverjir eru að fara að fá góða bónusa þökk sé ríkisstjórn Íslands,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á Facebook-síðu sinni þar sem hann birtir hugleiðingu um afnám hafta. 

Gjaldeyrishöft á einstaklinga, fyrirtæki og lífeyrissjóði verða afnumin að fullu frá og með morgundeginum. Samhliða afnámi hafta á innlenda aðila hefur stærsti hluti vanda sem stafað hefur af svokallaðri snjóhengju aflandskróna verið leystur með samkomulagi Seðlabanka Íslands við eigendur krónanna.

Sigmundur Davíð segir að það eigi til að gleymast í umræðunni um aflandskrónurnar að vogunarsjóðirnir keyptu þær í flestu tilfellum á verulegum afslætti af þeim sem urðu fyrir tjóninu við fall bankakerfisins.

„Ég spurðist fyrir um hvert meðalkaupverðið hefði verið hjá þeim. Eftir því sem næst verður komist fengu þeir líklega um 240 aflandskrónur fyrir evruna,“ segir Sigmundur Davíð.

Hann segir aflandskrónur nema hátt í 200 milljörðum króna samkvæmt Seðlabanka Íslands og þar af hafi hið svokallaða New York-samkomulag stjórnvalda snúist um 90 milljarða króna.

„Á genginu 240 kostuðu 90 milljarðarnir sjóðina 375 milljónir evra. Nú kaupir ríkið þessar sömu krónur á 655 milljónir evra sem bætast við vextina sem sjóðirnir voru búnir að fá,“ segir Sigmundur og telur nokkuð víst að einhverjir muni fá góða bónusa þökk sé ríkisstjórn Íslands.

„Ríkisstjórn sem hefur efni á að fjármagna bónusgreiðslur í New York og London (og í Reykjavík) hlýtur að geta endurnýjað lækningartæki, rétt hlut eldriborgara, fækkað einbreiðum brúm, klárað Dettifossveg, Berufjarðarbotn, Vestfjarðaveg, ljósleiðaravæðinguna,“ segir Sigmundur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×