Innlent

Kísilverið í Helguvík: Ekki verið hægt að greina útbreidd eða ákveðin sjúkdómseinkenni hjá íbúum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Ekki hefur verið hægt að greina útbreidd eða ákveðin sjúkdómseinkenni hjá íbúum í nágrenni kísilvers United Silicon í Helguvík. Íbúar sem finna fyrir einkennum sem þeir telja að stafi af mengun frá verksmiðjunni eru hvattir til þess að leita á heilsugæslu Suðurnesja.

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu frá sóttvarnalækni og Umhverfisstofnun.

„Í ljósi ólíkrar upplifunar íbúa í Reykjanesbæ og vegna opinberrar umræðu undanfarnar vikur um heilsuspillandi áhrif mengunar frá kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík vilja sóttvarnalæknir og Umhverfisstofnun upplýsa almenning um að haft hefur verið náið samráð við lækna heilsugæslu Suðurnesja og Vinnueftirlitið þegar mat hefur verið lagt á heilsufarsáhrif mengunarinnar,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá segir að fáir hafi leitað til lækna heilsugæslunnar með einkenni og ennfremur sé ekki að fjá fjölgun sjúkdómseinkenna né aukna sölu lyfja í gagnagrunnum embættis landlæknis hjá íbúum á svæðinu. Upplýsingarnar útiloki hins vegar ekki hugsanleg heilsufarsáhrif. Eru íbúar sem telja sig finna fyrir heilsufarseinkennum hvattir til þess að leita á heilsugæslu Suðurnesja svo hægt verði að kortleggja betur þau heilsuspillandi áhrif sem hugsanlega stafa af kísilverinu.

Greint var frá því fyrir helgi að stjórnendur United Silicon í Helguvík hafi óskað eftir sex mánaða fresti til nauðsynlegra úrbóta í mengunarmálum. Þeir segjast harma að lyktarmengun hafi valdið íbúum Reykjanesbæjar óþægindum en segja hana mega rekja til tímabundinna vandamála og byrjunarörðugleika, en þetta kemur fram í bréfi sem United Silicon sendi Umhverfisstofnun í síðustu viku.


Tengdar fréttir

Vill sex mánaða frest til að stöðva mengun

United Silicon vill lengri frest til úrbóta í mengunarmálum. Harma að lykt hafi valdið íbúum Reykjanesbæjar óþægindum en tala um tímabundin vandamál. Slökkva þurfti á verksmiðjunni í Helguvík um síðustu helgi vegna bilunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×