Enski boltinn

Chelsea sló út bikarmeistara Man. United | Sjáið sigurmark Kanté

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manchester United ver ekki enska bikarinn á þessu tímabili en bikarmeistararnir eru úr leik eftir 1-0 tap á móti verðandi Englandsmeisturum Chelsea á Stamford Bridge í lokaleik átta liða úrslita enska bikarsins í kvöld.

Chelsea er þar með komið í undanúrslitin á Wembley ásamt Manchester City, Arsenal og Tottenham.

Chelsea er með tíu stiga forystu á toppi ensku deildarinnar og er nú bara tveimur bikarsigrum frá því að vinna tvöfalt á þessu tímabili.  

Manchester United spilað manni færri síðustu 55 mínútur leiksins eftir að Spánverjinn Ander Herrera fékk sitt annað gula spjald á 35. mínútu leiksins.



Sigurmarkið kom úr óvæntri átt en það skoraði franski miðjumaðurinn N'Golo Kanté á 51. mínútu leiksins.

N'Golo Kanté átti enn einn stórleikinn á miðju Chelsea en auk þess að loka á mest allt miðjuspil United-manna þá gerði hann einnig út um leikinn með laglegu langskoti í upphafi seinni hálfleiksins.

Varnarmenn Manchester United gáfu Kanté of mikinn tíma fyrir utan vítateiginn og hann þakkaði fyrir sig og skoraði með laglegu marki. N'Golo Kanté hefur nú skorað tvö mörk á tímabilinu og hafa þau bæði komið á móti Manchester United.

Eden Hazard var United-liðinu afar erfiður í fyrri hálfleiknum, tvisvar nálægt því að skora og það var síðan hann sem fiskaði seinna gula spjaldið á Ander Herrera. Það var strangt að gefa annað gula spjald fyrir þetta brot en Michael Oliver dómari virtist vera búinn að fá nóg af því að leikmenn United-liðsins spörkuðu Hazard niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×