Erlent

Segja þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands skapa sundrung

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ríkisstjórn Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, virðist ekki vera hrifinn af áætlunum heimastjórnar Skotlands að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands. AFP greinir frá.

„Önnur þjóðaratkvæðagreiðsla myndi skapa sundrung og mikla efnahagslega óvissu á versta mögulega tíma,“ sagði talsmaður ríkisstjórnarinnar um möguleikann á nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Frá því að Bretar sögðu já við því að ganga úr Evrópusambandinu í kosningum síðastliðið sumar hafa yfirvöld í Skotlandi ítrekað rætt um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands. Mikill meirihluti Skota kaus gegn því að Bretland myndi yfirgefa Evrópusambandið.

Ríkisstjórn May hefur að sama skapi ítrekað greint frá því að hún telji ekki æskilegt að Skotland yfirgefi Bretland og að ríkisstjórnin hafi vald til þess að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu þess efnis.

Nicola Sturgeon, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, tilkynnti í dag að hún myndi sækjast eftir heimild skoska þingsins þess að halda nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands frá Bretlandi.

Skotar greiddu atkvæði um sjálfstæði árið 2014 en 55,3 prósent kjósenda höfnuðu því.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×